Erlent

Myndband af drápi lögreglumanns á svörtum manni birt

Kjartan Kjartansson skrifar
Jeronimo Yanez miðar byssu sinni að Philando Castile.
Jeronimo Yanez miðar byssu sinni að Philando Castile. Skjáskot/ABC
Lögreglan í Minnesota í Bandaríkjunum hefur birt myndband úr lögreglubíl af því þegar lögreglumaður skýtur svartan mann til bana í bifreið sem hann hafði stöðvað. Lögreglumaðurinn var sýknaður af manndrápsákæru í síðustu viku.

Philando Castile var skotinn til bana af lögreglumanninum Jeronimo Yanez í júlí í fyrra. Yanez hafði stöðvað Castile fyrir að vera með bilað afturljós í úthverfi borgarinnar St. Paul.

Á myndbandinu heyrist Castile tilkynna Yanez að hann sé með skotvopn í bílnum. Skotvopnið átti Castile löglega.

Yanez skipar Castile þá að teygja sig ekki eftir byssunni. Endurtekur hann skipunina og skýtur Castile svo nokkrum skotum, að því er kemur fram í frétt ABC-sjónvarpsstöðvarinnar.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá samskipti Yanez og Castile sem lýkur með því að lögreglumaðurinn skýtur ökumanninn til bana. Myndbandið er ekki fyrir viðkvæma.

Sáu myndbandið en sýknuðu lögreglumanninn

Kærasta Castlile var með honum í bílnum og sendi atvikið út beint á Facebook. Fjögurra ára gömul dóttir hennar var í aftursæti bílsins. Þegar kærastan segir Yanez að Castile hafi verið að teygja sig í skilríki sín segir lögreglumaðurinn að hann hafi sagt honum að teygja sig ekki eftir þeim.

Þegar sjúkrabíll kemur á vettvang heyrist Yanez svo segja að hann hafi ekki vitað hvar byssan var og að Castile hafi virst halda um eitthvað þykkara en veski.

Kviðdómur sá myndbandið en sýknaði Yanez af ákæru um manndráp í síðustu viku. Honum var hins vegar sagt upp störfum hjá lögreglunni. Sakaði fjölskylda Castile bandarískt réttarkerfi um að bregðast blökkumönnum með sýknudómnum.

Drápið á Castile er eitt fjölda mála þar sem lögreglumenn hafa skotið unga blökkumenn til bana í Bandaríkjunum. Hörð mótmæli hafa geisað reglulega í Bandaríkjunum undanfarin misseri vegna slíkra mála.

Samtök byssueigenda (NRA) hafa sætt töluverðri gagnrýni fyrir að þegja þunnu hljóði um mál Castile. Þau hafa barist fyrir rétti bandarísks almennings til að bera vopn með kjafti og klóm.


Tengdar fréttir

Sýknaður af drápinu á Philando Castile

Lögreglumaðurinn sem skaut blökkumanninn Philando Castile í Minnesota í fyrra var sýknaður af drápinu í gær. Móðir Castile segir bandaríska réttarkerfið bregðast svörtu fólki.

Skotinn við hlið kærustunnar

Enn á ný hafa bandarískir lögreglumenn komist í kastljós fjölmiðla fyrir að drepa þeldökka menn að ástæðulausu. Í fyrrakvöld var Philando Castile skotinn í Minnesota, daginn áður Alton Sterling í Louisiana.

Obama tjáir sig um dauða Sterling og Castile

"Við höfum séð harmleiki sem þessa alltof oft og hjörtu okkar slá fyrir fjölskyldurnar og samfélögin sem þjást yfir missi sínum,“ skrifaði Obama í yfirlýsingu á Facebook-síðu sína í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×