Innlent

Benedikt segist vera búinn að læra sína lexíu eftir stóra seðlamálið

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að betra sé að hvetja heldur en að hefta.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að betra sé að hvetja heldur en að hefta. Vísir/Eyþór
Benedikt Jóhannesson, fjármála og efnahagsráðherra, var gestur í Sprengisandi nú fyrir hádegi. Þar var rætt um umdeildar hugmyndir ráðherra að draga úr notkun reiðufjár almennt. Benedikt vitnar niðurstöðu starfshópsins sem komst að því þeir skattar sem ekki eru greiddir séu upp á 80-120 milljarða króna.

Segir jákvæðni skipta máli

„Stóra markmiðið er baráttan gegn skattsvikum, gegn kennitöluflökkurum, gegn þessum skattaskjólseigendum þannig að við skulum ekki eyða tíma í það sem nefnt var í framhjáhlaupi,“ sagði Benedikt. Benedikt viðurkenndi að hugmyndin hefði ekki farið vel í fólk.

„Lexían sem maður lærir af þessu er að það er betra að nálgast hlutina með jákvæðum hætti; með hvötum frekar heldur en bönnum og það meira er í ætt við mína lífsheimspeki. Ég get alveg viðurkennt það að mér þótti þessi tillaga, sem ég sá rétt á undan öðrum, skemmtilega flippuð eða „nörduð“ og ég hugsaði já, það verður einhver umræða um þetta, en mig óraði ekki við að hún yrði svona mikil og ég yrði skúrkurinn með þessum hætti,“ segir Benedikt og nefndi að mögulega hefði verið hægt að fara aðra leið.

„Ég held að við hefðum kannski átt að horfa meira á hugmynd sem hópurinn var með líka sem var að opnaðir yrðu ókeypis rafeyrisreikningar í Seðlabankanum sem væru eins og ígildi reiðufjár nema menn gætu notað þetta til greiðslu og þyrftu ekki að borga færslugjöld af þessum innistæðum. Ef menn vilja þetta þá er betra að gera þetta með jákvæðum hætti,“ segir Benedikt og bendir á að svona reikningur gæti verið öruggari en hins vegar væri enginn skyldugur til að nota reikningana.

Opna aðgang að fyrirtækjaskrám

Áhersla á gegnsæi er mikilvæg að mati Benedikts.

„Við erum að stíga fyrsta skrefið núna um áramótin með því að hafa opinn aðgang að firmaskrám. Þetta var tillaga sem Píratar báru fram á Alþingi og ég studdi þá mjög eindregið í því. Ég hef sagt það að ég vil ganga lengra; ég vil horfa líka á ársreikningana og ég vil horfa á hluthafaskrána,“  sagði Benedikt og nefnir að mikið verk sé fyrir höndum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×