Erlent

Trump grípur enn til gervifréttavarnarinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríkjaforseti á í vök að verjast vegna ásakana um að hafa hindrað framgang réttvísinnar.
Bandaríkjaforseti á í vök að verjast vegna ásakana um að hafa hindrað framgang réttvísinnar. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti vísar á bug frétt Washington Post um að hann sé til rannsóknar vegna mögulegrar hindrunar á framgangi réttvísinnar. Líkt og hann hefur ítrekað gert með óhagstæðar fréttir af sér kallar Trump fréttina „gervifrétt“.

Bandaríska blaðið hafði eftir fimm nafnlausum háttsettum embættismönnum að Robert Mueller, sérstakur rannsakandi á afskiptum Rússa á forsetakosningunum og mögulegum tengslum þeirra við forsetaframboð Trump, væri nú að rannsaka hvort að Trump hefði hindrað framgang réttvísinnar þegar hann rak James Comey úr embætti forstjóra alríkislögreglunnar FBI.

Eins og svo oft áður greip forsetinn til Twitter til þess að svara fyrir sig.

„Þeir bjuggu til gervisamráð með Rússafréttunum, fundu engar sannanir, svo nú fara þeir í hindrun á framgangi réttvísinnar í gervifréttinni.  Huggulegt,“  tísti Trump.

Skjáskot/Twitter
Þá endurtók hann fullyrðingu sína um að málið allt væri stærstu nornaveiðar í bandrískri stjórnmálasögu. Fyrir því stæði „mjög slæmt og ringlað“ fólk.

Reuters-fréttastofan segir hins vegar að heimildamaður hennar sem þekki til rannsóknar Mueller hafi staðfest frétt Washington Post. Rannsókn á mögulegri tilraun Trump til að hindra framgang réttvísinnar hafi verið óumflýjanleg eftir Comey sagði þingnefnd í síðustu viku að hann teldi forsetann hafa rekið sig vegna Rússaransóknarinnar.

Skjáskot/Twitter

Tengdar fréttir

Repúblikanar hafna því að Trump hafi hindrað framgang réttvísinnar

Formaður landsnefndar Repúblikanaflokksins sakar sérstakan rannsakanda dómsmálaráðuneytisins um "staðlausar ásakanir“ um að Donald Trump sé til rannsóknar fyrir hindrun á framgangi réttvísinnar. Repúblikanar telja að eini glæpurinn sem hefur verið framinn séu "ólöglegir lekar“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×