Innlent

Manndráp í Mosfellsdal: Yfirheyrslur fram eftir nóttu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Lögreglunni barst tilkynning um árásina klukkan 18:24 og fór fjölmennt lið lögreglu ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra, slökkviliði og sjúkraflutningafólki á vettvang.
Lögreglunni barst tilkynning um árásina klukkan 18:24 og fór fjölmennt lið lögreglu ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra, slökkviliði og sjúkraflutningafólki á vettvang. Vísir/Eyþór
Fimm karlar og ein kona hafi verið handtekin vegna manndráps í Mosfellsdal í kvöld. Karlmaður á fertugsaldri var úrskurðarður látinn á Landspítalanum í Fossvogi eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás við Æsustaði í Mosfellsdal.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sem fer með rannsókn málsins segir að nú taki við yfirheyrslur sem búist er við að standi langt fram eftir nóttu.

„Nú ætlum við að yfirheyra þetta fólk. Bæði erum við að yfirheyra þá sem voru handteknir og vitni. Svo tökum við stöðuna í framhaldinu,“ segir Grímur í samtali við Vísi.

Hann segir að ekki sé enn ljóst hvort þau handteknu verði leidd fyrir dómara og farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim.

„Svo verður tekin ákvörðun í framhaldinu af því hvort að einhverjir verða leiddir fyrir dómara, við tökum ákvörðun í framhaldi af yfirheyrslum,“ segir Grímur.

Öll þau handteknu hafa áður komið við sögu hjá lögreglu.

Lögreglunni barst tilkynning um árásina klukkan 18:24 og fór fjölmennt lið lögreglu ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra, slökkviliði og sjúkraflutningafólki á vettvang. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni er rannsókn málsins umfangsmikil.

Myndband sem fréttamaður Stöðvar 2 tók á vettvangi fyrr í kvöld má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×