Menning

Húllumhæ beggja vegna Listagilsins á laugardag

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Guð fær greitt í dollurum heitir þetta verk eftir Magnús Helgason.
Guð fær greitt í dollurum heitir þetta verk eftir Magnús Helgason.
Það frábæra við að auglýsa eftir þátttöku á svona stóra samsýningu er að maður uppgötvar alltaf eitthvað nýtt. Það koma inn verk frá myndlistarmönnum sem maður vissi ekki einu sinni að væru til,“ segir Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, sem er í óðaönn að setja upp sýninguna Sumar í Ketilhúsinu. Þar eru verk af ólíkum toga, meðal annars málverk, skúlptúrar, ljósmyndir, vídeóverk og teikningar, eftir norðlenska listamenn, 21 talsins. Flestir eru með eitt verk en að hámarki þrjú.



Line Orange Pile eftir Svövu Þórdísi Baldvinsdóttur Júlíusson.
Auðvitað er skilgreiningaratriði hvað séu norðlenskir listamenn,“ segir Hlynur. „En ellefu þeirra sem sýna núna í Ketilhúsinu búa og starfa á Norðurlandi. Tíu búa annars staðar en starfa að hluta til hérna. Bergþór Morthens býr til dæmis í Gautaborg en er mikið á Siglufirði, kennir við Menntaskólann á Tröllaskaga og sýnir hér oft. Snorri Ásmunds er uppalinn hér þó fæstir tengi hann við norðlenska myndlist. Svo er Svava Þórdís fædd og uppalin á Siglufirði en fluttist til Kanada, lærði þar og starfar. Hún er með skúlptúra.“

Alls bárust yfir 100 verk sem fimm manna dómnefnd valdi úr. Hlynur segir þetta vera í annað sinn sem Listasafnið á Akureyri hafi það fyrirkomulag á undirbúningi sýningar. Hitt var haustið 2015. „Útkoman er þannig að úr verður sýning sem ekkert auðvelt er að raða saman – verkin eru svo fjölbreytt – en það er skemmtilegt verkefni.

Síðast vorum við með verk eftir 30 listamenn en nú eru þeir 21 sem helgast af því að við stöndum í byggingarframkvæmdum í aðalrými listasafnsins og höfum bara Ketilhúsið nú.

Fjöldi listamanna segir auðvitað ekki allt því verkin eru ólík að umfangi. Minnsta verkið er kannski 10x10 sentimetrar og við erum með innsetningu sem tekur um 20 fermetra. Svo eru vídeóverk og hlutfall milli málverka og skúlptúra kemur inn í þetta líka.“



 

„Útkoman úr svona söfnun er þannig að úr verður sýning sem ekkert auðvelt er að raða saman – verkin eru svo fjölbreytt – en það er skemmtilegt verkefni,“ segir Hlynur. Mynd/Auðunn Níelsson
Hlynur segir hugmyndina að svona sýningarhaldi eldgamla. „Haustsýningar eru enn víða haldnar í Evrópu, þar er úrval af því besta sem listamenn eru að fást við þá stundina og dómnefnd hefur valið.“ Sýningin Sumar verður opin í allt sumar. „Það verður mikið húllumhæ á laugardaginn því sýning þeirra sem ekki komust að verður líka opnuð í Deiglunni, hér hinum megin við götuna á vegum Gilfélagsins,“ segir Hlynur. „Hún heitir eitthvað á frönsku sem ég kann ekki að bera fram en þýðir: Sýning þeirra sem var hafnað.“

 

Sumar

Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru

Aðalsteinn Þórsson

Arnar Ómarsson

Auður Lóa Guðnadóttir

Auður Ómarsdóttir

Árni Jónsson

Bergþór Morthens

Björg Eiríksdóttir

Brynhildur Kristinsdóttir

Erwin van der Werve

Helga Björg Jónasardóttir

Hertha Richardt Úlfarsdóttir

Hildur Ása Henrýsdóttir

Jónborg Sigurðardóttir

Jónína Björg Helgadóttir

Karl Guðmundsson

Magnús Helgason

Rebekka Kühnis

Sara Björg Bjarnadóttir

Sigríður Huld Ingvarsdóttir

Snorri Ásmundsson

Svava Þórdís Baldvinsdóttir Júlíusson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×