Erlent

Yfirmaður samskipta hjá Hvíta húsinu segir upp

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump réð Mike Dubke til starfsins fyrir þremur mánuðum síðan.
Donald Trump réð Mike Dubke til starfsins fyrir þremur mánuðum síðan. Vísir/Getty
Yfirmaður samskipta hjá Hvíta húsinu, Mike Dubke, hefur sagt starfi sínu lausu rúmum 3 mánuðum eftir að hafa verið ráðinn til starfa af Bandaríkjaforseta.

Dubke skilaði inn uppsagnarbréfi sínu fyrir 12 dögum en bauðst til að gegna embættinu þangað til Donald Trump kæmi heim úr fyrstu opinberu utanlandsferð sinni sem forseti. Trump féllst á það. 

Dubke hefur unnið náið með talsmanni Hvíta hússins, Sean Spicer, sem búist er við að verði í minna hlutverki á næstu vikum. Vísir greindi frá því um helgina að Hvíta húsið hefði í hyggju að draga úr vægi daglegra blaðamannafunda og leggja meiri áherslu á það sem kalla mætti kosningafundi - þar sem Bandaríkjaforseti talar beint til fólksins.

Sjá einnig: Breytingar í vændum hjá Trump sem blæs til sóknar

Dubke og Spicer hafa báðir verið harðlega gagnrýndir af innsta hring forsetans. Ráðgjafar og stuðningsmenn Trumps telja að þeir hafi brugðist illa við fjölmiðlafárinu síðustu daga í tengslum við rannsóknina á meintum tengslum kosningateymis Trump við Rússa, íhlutun þeirra í kosningarnar síðasta haust og brottrekstur fyrrum yfirmanns FBI, James Comey.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær Dubke hættir formlega en Washington Post telur að það gæti verið í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×