Innlent

Meirihlutinn styður tillögu dómsmálaráðherra um skipan dómara við Landsrétt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í Alþingishúsinu í dag.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í Alþingishúsinu í dag. vísir/anton brink

Tillaga Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, um skipan dómara við Landsrétt var afgreidd í ágreiningi úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nú á sjöunda tímanum. Meirihluti nefndarinnar styður tillögu ráðherrans en minnihlutinn vildi fá meiri tíma til að fara yfir málið og var því ekki sáttur við að málið skyldi afgreitt úr nefndinni í dag.



Frá þessu var greint í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem rætt var við þau Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, og Birgittu Jónsdóttur, þingmann Pírata, en hún hafði boðað það að hún myndi leggja fram vantrauststillögu á dómsmálaráðherra ef ekki fengist fullnægjandi rökstuðningur og álit sérfræðinga um skipan dómaranna 15 við Landsrétt.

Í fréttum Stöðvar 2 sagði hún að nú myndi hún fara yfir það hvort slík tillaga yrði lögð fram en hún sagði málið snúast um fagleg vinnubrögð þar sem hún teldi að meiri tíma þyrfti til þess að fara yfir það. Birgir sagði hins vegar að meirihluti teldi rökstuðning ráðherra fyrir tillögunni fullnægjandi og styðji hann tillöguna. 

Í tillögu dómsmálaráðherra eru fjórir einstaklingar sem hæfnisnefnd mat ekki á meðal þeirra fimmtán hæfustu til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Ýmsir hafa gagnrýnt það, þar á meðal Lögmannafélagið og Ástráður Haraldsson, sem er einn þeirra sem nefndin mat hæfasta en hlýtur ekki náð fyrir augum ráðherrans.

Áætluð þinglok eru í kvöld eða nótt og mun þingið þurfa að greiða atkvæði um tillögu ráðherrans um skipan dómara við Landsrétt. Telja má líklegt að þá muni reyna á meirihlutann á þingi en ríkisstjórnin hefur aðeins eins manns meirihluta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×