Erlent

Skoða fljótandi rörgöng til að brúa Sognfjörðinn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Norska Vegagerðin skoðar nú þann valkost að leggja fljótandi rörgöng yfir Sognfjörðinn fremur en að brúa hann með lengstu hengibrú heims. Í fréttum Stöðvar 2 voru sýndar grafískar myndir af því hvernig þessi tröllauknu mannvirki gætu litið út. 

Í Noregi er yfir þúsund firðir, þeir gerðu Norðmenn að mestu siglingaþjóð veraldar, en í nútímasamgöngum teljast þeir hindrun, og þar hafa bílferjur verið helsta lausnin. Fyrir sex árum mörkuðu norsk stjórnvöld þá stefnu að gera ferjulausan bílveg um vesturströndina milli Kristjánssands og Þrándheims fyrir árið 2030, til að stytta ferðatímann um helming, úr 21 klukkustund niður í 11 klukkustundir.

Þar er  Sognfjörðurinn, stærsti fjörður Noregs, mesta áskorunin, en þar sem best er talið að þvera fjörðinn er hann 3.700 metra breiður og 1.300 metra djúpur, sem er of mikið dýpi til að unnt sé að grafa hefðbundin jarðgöng í bergi undir fjörðinn.

Hengibrú yfir Sognfjörðinn yrði sú lengsta í heimi, með 3.700 metra brúarhafi.Grafík/Statens vegvesen.
Norska vegagerðin, Statens vegvesen, skoðar nú þrjár lausnir. Í fyrsta lagi hengibrú sem yrði sú lengsta í heimi, með 3.700 metra brúarhafi, næstum tvöfalt lengra en það sem lengst þekkist í heiminum í dag. 

Í öðru lagi fljótandi hengibrú með þremur brúarhöfum en tveimur flotstöplum, en sú lausn byggir á tækniþekkingu Norðmanna við olíuborpalla.

Rörgöngin myndu fljóta á 20 metra dýpi undir yfirborði. Tvenn samhliða göng yrðu lögð.Grafík/Statens vegvesen.
Þriðja lausnin er sú sem Norðmenn kalla rörbrú, en það eru steypt fljótandi rörgöng. Tveimur samliggjandi rörum, fjögurra kílómetra löngum, yrði sökkt niður á 20 metra dýpi, en haldið uppi með mörgum stórum flotholtum á yfirborði fjarðarins. 

Upplifun vegfarenda yrði væntanlega sú sama og að aka um venjuleg jarðgöng, en það er svo annað mál hvort menn þyrðu að aka í gegnum fljótandi steypurör, vitandi af skipum siglandi fyrir ofan. 

Stór flotholt myndu halda göngunum á floti nægilega djúpt undir yfirborði svo skip geti siglt um fjörðinn.Grafík/Statens vegvesen.
En ef Norðmönnum tekst þetta, þá gætu Vestmannaeyingar kannski farið að láta sig dreyma.


Tengdar fréttir

Norðmenn áforma jarðgöng fyrir skip

Fyrstu jarðgöng veraldar fyrir skip eru nú í undirbúningi í Noregi. Þeim er ætlað að sneiða framhjá einni hættulegustu siglingaleið Evrópu, leiðinni fyrir Stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×