Viðskipti innlent

Hinar íslensku Super Bowl auglýsingar: Í tísku að keyra á tilfinningar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Auglýsingar Lottó, Icelandair og Vís hafa vakið athygli fólks.
Auglýsingar Lottó, Icelandair og Vís hafa vakið athygli fólks. Skjáskot
Fjórar stórar íslenskar auglýsingar voru frumsýndar síðastliðinn þriðjudag þegar fyrri forkeppni Eurovision var sýnd á RÚV. Framkvæmdastjóri EnnEmm auglýsingastofu segir að Eurovision sé auglýsingahátíð Íslendinga, líkt og Super Bowl er fyrir Bandaríkjamenn.

Þar hefur auglýsing Icelandair vakið mesta athygli þar sem Stelpurnar okkar í landsliðinu í fótbolta eru í aðalhlutverki, en auglýsingin fjallar um mótlætið sem þær hafa þurft að takast á við á ferlinum.

Auglýsingin rímar við auglýsingu flugfélagsins frá því í fyrra þegar karlalandsliðið var í aðalhlutverki, en Stelpurnar okkar keppa á EM kvenna í knattspyrnu í Hollandi í sumar.

Auk Icelandair auglýsingarinnar vakti auglýsing Lottó gríðarlega mikla athygli þar sem ungur drengur prófar sig áfram í íþróttum og í lokin kemur í ljós að hann er orðinn blindur þegar hann hefur fundið sína hillu í lífinu, sund. 

Þá hefur auglýsing VÍS tröllriðið samfélagsmiðlum síðustu daga og hefur verið í mikilli dreifingu á Instagram, til dæmis. Þar sjást ungir söngvarar syngja Í síðasta skipti með söngvaranum Friðriki Dór af mikilli innlifun. 

Ákveðin stemning

EnnEmm auglýsingastofa framleiddi þrjár þessara auglýsinga sem frumsýndar voru á þriðjudaginn. Á vef stofunnar segir að Eurovision sé hið íslenska Super Bowl en auglýsingar sem framleiddar eru fyrir Super Bowl vekja jafnan athygli um allan heim og skarta skærustu stjörnunum úr heimi íþrótta og skemmtanaiðnaðarins.

„Það er bara mjög gott áhorf,“ segir Jón Sæmundsson, framkvæmdastjóri EnnEmm, aðspurður hvað það er sem gerir Eurovision að okkar Super Bowl.

„Það er svo einfalt. Fólk er í ákveðinni stemningu, kemst í Eurovision gírinn þegar fjölskyldan sest fyrir framan sjónvarpið. Þetta er að verða stærra en áramótaskaupið, en þar er náttúrulega stór hluti af þjóðinni sem man ekkert eftir hvað gerist þar. Á þessum tíma er þetta fjölskyldustund og fólkið er í góðum fíling. Svo er áhorfið komið yfir 70 prósent.“

Sjá einnig: Grátandi og með gæsahúð: „Fáránlegt að Icelandair auglýsingin hafi ekki komist áfram“

Hann segir mikið lagt upp úr því og að það sé bæði í tísku hér á landi sem og erlendis að keyra á tilfinningar fólks og segja sögur.

„Að kalla fram tilfinningar, ef auglýsingin kallar ekki fram tilfinningar þá fer hún bara í gegn og þú manst ekkert eftir henni.“

En nú er ísland dottið úr Eurovision, er stóra keppnin enn jafn mikið auglýsingaslot?

„Já, áhorfið virðist ekkert detta niður á laugardeginum þó að Ísland falli úr keppni, heldur er það í raun og veru að aukast. Það er bara Eurovision æði hérna og nú heldur fólk bara með öðrum þjóðum.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×