Erlent

Norðmanninum Joshua French sleppt úr kongólsku fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Joshua French.
Joshua French. Vísir/AFP
Norðmanninum Joshua French, sem var dæmdur fyrir morðið á kongólskum bílstjóra og norskum klefafélaga sínum í fangelsi, hefur verið sleppt úr fangelsi í Lýðveldinu Kongó.

Verdens Gang greinir frá þessu en Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 16 að íslenskum tíma ásamt utanríkisráðherranum Børge Brende.

Greint var frá því í febrúar að French hafi verið náðaður og að honum yrði sleppt einhvern tímann á árinu.

French var árið 2009 dæmdur ásamt Tjostov Moland fyrir morð á kongólskum bílstjóra, rán og njósnir. Var French dæmdur til dauða, en dómnum var síðar breytt í lífstíðarfangelsi. Eftir að Moland lést í klefa Norðmannanna árið 2013 hófust réttarhöld þar sem French var aftur dæmdur til dauða, nú fyrir morð á Moland.

Hugðust stofna þjálfunarbúðir fyrir málaliða

Norðmennirnir hugðust á sínum tíma stofna þjálfunarbúðir fyrir málaliða í landinu samkvæmt viðtölum bresks málaliða við norska fjölmiðla. Voru þeir sagðir hafa sinnt sex verkefnum sem málaliðar í Lýðveldinu Kongó og suðurhluta Súdan árið 2008.

Norðmennirnir voru svo handteknir í Lýðveldinu Kongó í maí 2009 vegna gruns um morð á bílstjóra sínum. Fullyrtu þeir að bílstjórinn hafi verið skotinn í hnakkann úr launsátri eftir að bíll þeirra hafði verið stöðvaður.

Fjórum árum síðar fannst Moland, sem þá var 32 ára gamall, látinn í klefanum sem hann deildi með French. Upphaflega var talið að Moland hafi svipt sig lífi en hálfu ári síðar var French dæmdur fyrir morð á Moland.

Utanríkisráðherra Kongó greindi norska ríkisútvarpinu NRK svo frá því í febrúar síðastliðnum að French hafi verið náðaður þó að ekkert liggi fyrir um ástæður þess.


Tengdar fréttir

Norðmenn dæmdir aftur til dauða í Kongó

Herdómstóll í Kongó dæmdi tvo Norðmenn til dauða í annað skiptið. Dæma þurfti aftur í málinu vegna tæknilegra atriða, segir í frétt The Guardian.

Norskur málaliði lést í Kongó

Norskur málalið Þjóstólfur Moland, sem setið hefur í fangelsi í Kongó frá árinu 2009 lést í fangaklefa sínum í gær. Moland og hinn bresk-norski félagi hans Joshua French, voru handteknir í landinu og dæmdir til dauða fyrir að myrða bílstjóra sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×