Erlent

Duterte myndi glaður „slátra“ 50 þúsund manns til viðbótar

Rodrigo Duterte tók við embætti forseta Filippseyja síðasta sumar.
Rodrigo Duterte tók við embætti forseta Filippseyja síðasta sumar. Vísir/AFP
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur hótað því að afhöfða alla þá sem gagnrýna baráttu hans gegn fíkniefnasölum og fíklum í landinu. Forsetinn segir jafnframt að hann vilji drepa 50 þúsund manns til viðbótar sem tengjast fíkniefnaviðskiptum í landinu.

„Ekki hlusta á þessa mannréttindagagnrýnendur. Ef þið gerið það mun ég höggva höfuð ykkar af,“ segir forsetinn umdeildi.

Aftonbladet segir frá því að Duterte hafi einnig rætt um þá 10 þúsund manns sem mannréttindasamtök segja að hafi látið lífið í blóðuðu stríði forsetans frá því að hann tók við embætti síðasta sumar.

„Þeir mega verða 50 þúsund. Ég ætla að stöðva þá. Sama þó að ég fari til helvítis. Ég get rotnað í fangelsinu, mér er sama. Ég er orðinn gamall,“ segir hinn 72 ára Duterte.

Forsetinn hefur áður líkt fíkniefnastríði sínu við helförina. „Hitler slátraði þremur milljónum gyðinga. Nú erum við með þrjár milljónir fíkla hérna. Ég myndi glaður slátra þeim,“ sagði Duterte í ræðu, þar sem hann vanmat verulega fjölda gyðinga sem létu lífið í helförinni í seinna stríði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×