Innlent

Íslenski drengurinn enn týndur og ættingjarnir vilja ekki tala

Snærós Sindradóttir skrifar
Erika Nilsson er stjúpmóðir drengsins en til hans hefur ekki spurt síðan í nóvember 2015.
Erika Nilsson er stjúpmóðir drengsins en til hans hefur ekki spurt síðan í nóvember 2015. Fréttablaðið/GVA
Sex ára íslenskur drengur, sem hefur síðastliðna átján mánuði verið leitað af föður sínum og stjúpmóður, er enn ekki fundinn. Móðir hans virðist hafa látið sig hverfa með hann frá heimili þeirra í Svíþjóð en lögreglan á Íslandi og í Svíþjóð rannsaka hvarfið.

„Við höfum engar frekari upplýsingar. Eftir frétt Fréttablaðsins í apríl fengum við símtal frá lögreglunni á Íslandi þar sem þau sögðu að ættingjar þeirra á Íslandi vilji ekki tala við okkur,“ segir Erika Nilsson, stjúpmóðir drengsins. Hún kom til Íslands í apríl til að vekja athygli á málinu. Einkaspæjara á vegum föðurfjölskyldunnar hafði ekki tekist að finna drenginn og sagði honum haldið innandyra ef hann væri á Íslandi. Drengurinn er með sjaldgæfan sjúkdóm.

Íslenska lögreglan telur mæðginin ekki vera á Íslandi. Rannsókn hefur engu skilað. Málið hefur tvær hliðar, annars vegar afhending barns til forsjáraðila á grundvelli Haag-samningsins um brottnám barna og hins vegar sakamál vegna hvarfsins. Móðirin hefur ekki svarað símtölum eða tölvupóstum barnsföður síns síðan í nóvember 2015. Sama á við um fjölskyldu konunnar. Heimildir herma að eftirgrennslan lögreglu mæti ekki samvinnu af hálfu fjölskyldunnar. 

„Við létum sænsku lögregluna fá allar upplýsingar frá íslensku lögreglunni. Sænska lögreglan er á kafi í rannsókninni, og hefur óskað upplýsinga frá Facebook til að finna staðsetningu þeirra. Við höfum fengið tölvupóst frá fólki sem vill vel en ekkert sem hönd á festir.“  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×