Erlent

Segja kosninguna vera lögmæta

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Stuðningsmenn Erdogan fagna niðurstöðunni.
Stuðningsmenn Erdogan fagna niðurstöðunni. Vísir/EPA
Sadi Guven, yfirmaður kjörnefndar í Tyrklandi, sem hafði umsjón með þjóðaratkvæðagreiðslunni þar í landi í gær, segir að niðurstaða kosningarinnar sé lögmæt.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni var kosið um breytingar á stjórnarskrá Tyrklands sem fela í sér grundvallar breytingar á stjórnskipun landsins. Breytingarnar veita Recep Tayyip Erdogan, forseta landsins, töluvert meiri völd en hann hafði áður.

Stjórnarandstaðan í Tyrklandi hafði mótmælt niðurstöðunni og krafist endurtalningar á 60% atkvæða vegna þess að óstimplaðir kjörseðlar voru teknir gildir. Guven segir að óstimpluðu kjörseðlarnir hafi verið frá kjörnefndinni og hafi þar af leiðandi verið gildir.

Um 51% kjósenda kusu með breytingunum í gær en meirihluti íbúa þriggja stærstu borga Tyrklands, Istanbúl, Ankara og Izmir, kaus gegn þeim.

Þá hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gefið frá sér yfirlýsingu þar sem segir að yfirvöld í Tyrklandi ættu að sækjast eftir víðtækri sátt um breytingarnar.

Nái breytingarnar fram að ganga mun Erdogan hafa forræði yfir fjárlögum Tyrklands, mun geta skipað og veitt ráðherrum lausn frá embætti og mun geta tilnefnt bæði saksóknara og dómara við tyrkneska dómstóla.


Tengdar fréttir

Kosið um forsetaræði í Tyrklandi

Í dag ganga Tyrkir til kosninga í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar sem munu auka völd Recep Tayyip Erdogan forseta landsins verulega gangi þær eftir og munu í reynd formlega afnema lýðræði í landinu í núverandi mynd.

„Sorgardagur“ í sögu Tyrklands

Tyrkir kusu um víðtækar breytingar á stjórnarskrá landsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag. Nái breytingarnar fram að ganga verður lýðræði í reynd afnumið í núverandi mynd í Tyrklandi og tekið verður upp forsetaræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×