Viðskipti innlent

Bann við olíuvinnslu miðist við ísrönd en ekki heimskautsbaug

Kristján Már Unnarsson skrifar

Evrópuþingið í Strassborg hafnaði í gær að styðja bann gegn allri olíuvinnslu norðan heimskautsbaugs, en slík samþykkt hefði getað snert áform Íslendinga á Drekasvæðinu. Þess í stað var ályktað gegn olíuvinnslu á þeim svæðum evrópska efnahagssvæðisins sem þakin eru hafís. 

Umhverfissamtök eins og Greenpeace hafa þrýst á Evrópusambandið að styðja bann gegn olíuvinnslu á norðurslóðum en þau hafa á undanförnum árum beitt sér gegn vaxandi umsvifum Norðmanna og Rússa í Barentshafi, meðal annars með því að klifra um borð í olíuborpalla.

Mótmæli þeirra hafa einnig tengst olíuleit Íslendinga eins og þegar hópur Grænfriðunga í ísbjarnarbúningum stormaði inn á olíuráðstefnu í Osló árið 2013 í þann mund sem Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri var að hefja ræðu um Drekasvæðið.

Greenpeace-félagar í ísbjarnarbúningum tóku orðið af Guðna A. Jóhannessyni orkumálastjóra á olíuráðstefnu í Osló árið 2013.

En nú anda norskir ráðamenn léttar eftir að tillögu um olíuvinnslubann norðan heimskautsbaugs var hafnað á þingi Evrópusambandsins í gær. Samþykkt tillögunnar hefði einnig getað sett íslensk stjórnvöld í bobba gagnvart Evrópusambandinu því íslenska Drekasvæðið liggur allt norðan heimskautsbaugs, rétt eins og olíu- og gasvinnslusvæði Norðmanna í Barentshafi. 

Þótt Norðmenn séu ekki aðilar að Evrópusambandinu beittu norsk stjórnvöld sér ákaft gegn samþykkt tillögunnar með þeim rökum að olíusvæðin í Barentshafi séu íslaus allt árið og fjarri ísjaðrinum. Samkvæmt upplýsingum íslenska utanríkisráðuneytisins í dag beittu íslensk stjórnvöld sér ekki í málinu. 

Niðurstaða Evrópuþingsins varð sú að samþykkja ályktun, sem ekki er skuldbindandi, þar sem lagst er gegn olíuvinnslu á hafíssvæðum evrópska efnahagssvæðisins. Evrópumálaráðherra Noregs fagnar niðurstöðunni í þarlendum fjölmiðlum en talsmenn umhverfissamtaka segja að það sé nú opið fyrir túlkun hvar ísjaðarinn liggi. 

Og hvað varðar íslenska Drekasvæðið, þá segir í tíu ára gamalli matsskýrslu að hafís hafi lítið borist inn á svæðið á síðustu áratugum, hafísárin 1965 til 1971 séu þó undantekning. Suðausturhorn svæðisins hafi þó verið íslaust á þessum tíma, að því best sé vitað.
 


Tengdar fréttir

Norðmenn stefna enn norðar með olíuboranir

Þátttaka áhrifamestu ríkja um olíuvinnslu á Norðurslóðum í ráðstefnu í Noregi í vikunni er skýr vísbending um að alþjóðasamfélagið vilji nýta auðlindir norðursins, en með öruggum hætti. Þetta er túlkun helsta sérfræðings Norðmanna um olíuiðnaðinn, Hans Henrik Ramm, í grein sem hann nefnir "Skýr sýn til norðurs". Norski olíumálaráðherrann Ola Borten Moe bauð til ráðstefnunnar í Þrándheimi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*