Innlent

Segja merkingar um vistvæna framleiðslu „jafngilda blekkingum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Ólafur Arnarson er formaður Neytendasamtakanna.
Ólafur Arnarson er formaður Neytendasamtakanna. Vísir

Neytendasamtökin telja notkun merkinga um vistvæna framleiðslu á matvælum „jafngilda blekkingum til neytenda þar sem engin viðurkennd vottun eða eftirlitsferli er fyrir hendi um slíka framleiðslu“. Stjórn samtakanna krefst þess að niðurstöður úr skoðunarheimsóknum Matvælastofnunar til matvælaframleiðslufyrirtækja verði gerðar opinberar.



Í tilkynningu frá samtökunum lýsa forsvarsmenn þeirra því yfir að Neytendasamtökin séu reiðubúin til að koma að borðinu við að byggja upp traust á skilvirku eftirliti með íslenskum matvælaframleiðendum. Mikilvægt sé að hagsmunir og sjónarmið neytenda liggi til grundvallar við slíkt eftirlit.



Þá skora samtökin á stjórnvöld að heimila tollfrjálsan innflutning á lífrænt vottuðum matvælum í samræmi við EES samninginn og í þágu íslenskra neytenda.



Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, fundaði í dag með formanni Bændasamtakanna og ræddu þeir meðal annars umfjöllun Kastljóss í gær á Brúneggjum ehf, samkvæmt tilkynningunni.



„Neytendasamtökin og Bændasamtökin eru á einu máli um að það er með öllu óviðunandi að ekki sé gætt að góðum og heilnæmum aðbúnaði dýra við matvælaframleiðslu. Þá eru aðilar sammála um að óásættanlegt sé að merkingar umbúða séu notaðar til að blekkja neytendur. Neytendur verða að geta treyst því að á umbúðamerkingum séu áreiðanlegar upplýsingar um innihald og uppruna matvöru.“



Ólafur hefur einnig óskað eftir fundi með forstjóra MAST vegna málsins. Vill hann ræða viðbrögð til að tryggja að upplýsingum um villandi merkingar á matvælum sé ekki haldið frá neytendum, „jafnvel árum saman“.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×