Innlent

Auknar líkur á nýju eld­gosi á næstu dögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá síðasta eldgosi.
Frá síðasta eldgosi. Vísir/Vilhelm

Auknar líkur eru taldar á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Reykjanesi. Áætlað er að tæpir fjórtán milljónir rúmmetra af kviku hafi bæst í kvikuhólfið undir Svartsengi frá því síðasta eldgos hófst þann 16. mars.

Kvikusöfnun heldur áfram á sama hraða og áður og hefur lítil breyting orðið á landrisinu við eldstöðvarnar.

Í uppfærslu á vef Veðurstofu Íslands segir að í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafi um átta til þrettán milljónir rúmmetra bæst við kvikuhólfið áður en hún hefur hlaupið þaðan yfir í Sundhnúksgígaröðina. Nú sé magnið komið upp fyrir efri mörkin.

Reynslan frá Kröflueldum sýni þó að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þurfi meiri þrýsting til að koma þeim af stað.

„Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, en nokkur óvissa er um hvenær nægilegum þrýstingi verður náð til að koma nýju kvikuhlaupi af stað og að kvika nái til yfirborðs,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Þá segir þar einnig að nýjar gossprungur gætu opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og að hraunflæðið gæti orðið sambærilegt við upphafsfasta síðustu eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni.

Eldgosið gæti hafist með stuttum eða engum fyrirvara.

„Aukin skjálftavirkni hefur verið að mælast á Sundhnúksgígaröðinni síðusta daga. Þessi aukning í skjálftavirkni er líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.“

Áfram verður fylgst náið með virkninni.


Tengdar fréttir

Eldvörp líkleg næst

Eldfjallafræðingur telur líklegt að næsta gos á Reykjanesi verði í Eldvörpum. Það sé langbesti staðurinn til að fá nýtt eldgos því á svæðinu sé mikið flatlendi og langt í mikilvæga innviði. Nýtt eldgos geti hafist hvenær sem er



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×