Erlent

Móðir Teresa orðin að dýrlingi innan kaþólsku kirkjunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Péturstorgi í morgun.
Frá Péturstorgi í morgun. Vísir/AFP
Móður Teresu hlaut í morgun dýrlingsnafnbót við hátíðlega athöfn í Vatíkaninu að viðtöddum tugþúsundum manna.

Móðir Teresa er heimsþekkt fyrir starf sitt í fátækrahverfum Kalkútta á Indlandi en hún hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1979. Hún lést árið 1997, 87 ára að aldri.

Páfagarður þarf að ákvarða að einstaklingur hafi framkvæmt tvö kraftaverk til að sá eigi möguleika á að komast í hóp dýrlinga. Áður hafði Páfagarður lýst því yfir að kona á Indlandi að hafa læknast af æxli í kviðarholi árið 2002 og hins vegar brasilískur karl af heilaæxli árið 2008. Bæði höfðu þau beðið til Móður Teresu í von um lækningu.

Frans páfi staðfesti síðara kraftaverkið í fyrra og gerði Móður Teresu þannig kleift að vera tekin í dýrlingatölu.

Angelo Amato kardináli fór yfir lífshlaup Móður Teresu á meðan á athöfninni stóð og bað svo Frans páfa að taka hana í dýrlingatölu.

Jóhannes Páll páfi II tók Móður Teresu í tölu hinna blessuðu, sem er fyrsta skrefið í að hún verði gerð að dýrlingi, árið 2003.

Á vef Vísindavefsins segir að dýrlingar kaþólsku kirkjunnar séu líklega um 10 þúsund talsins en nákvæm tala þeirra er ekki þekkt. 

Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×