Handbolti

Svíar vilja íslenskan landsliðsþjálfara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristján Andrésson.
Kristján Andrésson.
Kristján Andrésson hefur verið orðaður við starf þjálfara sænska handboltalandsliðsins í sænskum fjölmiðlum.

Aftonbladet fullyrðir að Kristján sé á óskalista sænska sambandsins en líklegt er að núverandi þjálfarar, Staffan Olsson og Ola Lindgren, hætti í lok sumars.

Kristján fæddist í Svíþjóð en var íslenskur landsliðsmaður og fór með á Ólympíuleikana í Aþenu 2004. Ári síðar lagði hann skóna á hilluna vegna meiðsla.

Hann var lengi þjálfari Guif í sænsku úrvalsdeildinni en ákvað að hætta eftir síðasta tímabil. Hann sagði þá skilið við þjálfun, í bili að minnsta kosti, en játar að það væri erfitt að hafna landsliðinu.

„Ég hef ekkert að segja um þetta,“ sagði Kristján við Aftonbladet sem vildi hvorki játa né neita að hann ætti í viðræðum við sænska sambandið, sem hefur verið í þjálfaraleit síðan í mars.

„Ef það kæmi til þess að mér yrði boðið þetta tækifæri þá hefði ég auðvitað áhuga. Það væri erfitt að hafna slíku tilboði.“

Íslenkir þjálfarar hafa náð frábærum árangri undanfarin misseri. Þórir Hergeirsson hefur unnið marga titla með norska kvennalandsliðinu undanfarin ár og á þessu ári gerði Guðmundur Guðmundsson Danmörku að Ólympíumeistara og Dagur Sigurðsson Þýskaland að Evrópumeistara.

Þá má ekki gleyma að Alfreð Gíslason þjálfar eitt besta lið Evrópu, þýska liðið Kiel, auk þess sem að íslenskir þjálfarar eru við störf hjá mörgum öflugum liðum í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×