Innlent

„Þetta er vinur sem þú treystir og þú kemst að því að hann hafi stungið þig í bakið með hníf“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ákærði í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Ákærði í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Vísir/Eyþór
„Því miður var ég með þennan hníf á mér. Það hefði verið best ef ég hefði ekki verið með þennan hníf og hefði bara verið laminn í klessu.“ Þetta segir maður á þrítugsaldri sem ákærður hefur verið fyrir tilraun til manndráps en hann stakk vin sinn í bakið með hníf fyrir utan stúdentagarðana við Sæmundargötu þann 6. mars síðastliðinn.

Áverkar eftir hnífstunguna voru lífshættulegir en hnífsblaðið var langt og fór 12,5 sentímetra inn í lifur mannsins. Þannig réði það úrslitum að lítil bílaumferð var þessa nótt svo bæði lögregla og sjúkralið var fljótt á staðinn auk þess sem skurðlæknir á vakt var fljótur á bráðamóttöku. Þá var skurðteymi þegar klárt með skurðstofu þegar maðurinn kom á spítala en það er afar sjaldgæft og getur tekið allt að klukkustund að gera skurðstofu klára.

Aðalmeðferð í málinu fór fram í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur. Andrúmsloftið í dómsal var þungt, bæði ákærði og brotaþoli hlýddu á vitnaleiðslur og málflutning og aðstandendur mannanna beggja voru á staðnum. Málið er einstaklega sorglegt, um það voru bæði ákæruvaldið og verjandi mannsins sammála. Um er að ræða tvo vini til margra ára, unga menn sem báðir eru í háskólanámi og hafa atburðirnir haft mikil áhrif á líf þeirra beggja.

Úr Héraðsdómi Reykjavíkur.vísir/vilhelm
Bæði gerandi og sá sem varð fyrir hnífstungunni báru vitni um atburði kvöldsins. Þeim ber ekki alveg saman um atburði kvöldsins. Ákærði lýsir miklu ósætti sem þolandi kannast ekki við. Þá kannast þolandi hvorki við að hafa átt í hótunum við ákærða né að hafa slegið hann.

Þá báru vitni vinir mannanna sem höfðu komið til þeirra um kvöldið, nágrannar sem sáu samskipti mannanna um kvöldið og læknar á Landspítalanum.



Taldi sig niðurlægðan og reiddist

Aðalmeðferð hófst á framburði ákærða. Maðurinn, sem er hálfþrítugur, smágerður og meistaranemi í lögfræði, greindi ítarlega frá sinni hlið málsins.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum voru mennirnir tveir saman í gleðskap heima hjá ákærða á stúdentagörðunum við Sæmundargötu. Ákærði greindi frá því að gleðskapurinn hefði hafist með venjubundnum hætti og að ekkert hefði verið óeðlilegt í fyrstu. Um miðnætti voru mennirnir tveir eftir ásamt kærustu ákærða og vinkonu hennar.

„Síðan ákveður hún að fara og þegar hún er að fara beygir hún sig fram og er eitthvað að klæða sig í skóna sína. Þá tók ég eftir því að hann hafði tekið mynd af henni, eða snapchat,“ segir ákærði. Hann sagðist hafa gert sér grein fyrir því þá að hann hefði talið sig sjá vin sinn taka myndir af kærustu hans fyrr um kvöldið. Hann segist hafa orðið ósáttur við þetta og tekið eftir því að vinur sinn hafði skrifað athugasemd inn á myndina.

Sárnaði að vera kallaður eineltisbarn

„Mér fannst þetta óeðlilegt. Að hann skyldi vera að gera þetta í boði hjá mér,“ segir ákærði. Ræddu þeir saman um myndatökuna og sagði ákærði félaga sinn ekki hafa talið nokkuð óeðlilegt við myndatökurnar. Í upphafi hafi umræðurnar verið á lágu nótunum.

„Síðan stigmagnast þetta einhvern veginn. Hann fer að segja að ég sé nörd og lúði.“ Ákærði segist hafa orðið sár við þetta. Í millitíðinni kom til mannanna, sem þá höfðu verið einir nokkra stund, vinur þeirra og ásamt honum kærasta hans. Þau stoppuðu við í íbúðinni í stutta stund. Þau komu einnig fyrir dóminn í dag sem vitni og könnuðust ekki við að mennirnir hefðu átt í alvarlegu rifrildi.

„Það sem gerir þetta verst og sárast er að hann fer að kalla mig eineltisbarn. Fer að pota í það að ég hafi verið lagður í einelti. Ég í raun vissi ekki að hann vissi af því. Einhver sameiginlegur vinur okkar hafði greinilega sagt honum þetta. Hann fer að nota það gegn mér að ég hafi verið lagður í einelti, að ég sé eineltisbarn.“ Sjá mátti að ákærða þótti erfitt að greina frá þessu. Hann var lagður í einelti sem barn og segist skammast sín fyrir það. Hann hefur ekki unnið úr afleiðingum þess að vera lagður í einelti og vill helst sem minnst tala um þá reynslu sína.

Ákærði segist hafa svarað fyrir sig, sagt vin sinn misheppnaðan og að hann væri eftirbátur systur sinnar. „Hann verður mjög reiður við þetta.“



Tók með sér eldhúshníf sökum hræðslu

Lýsir ákærði því að þá hafi komið til örlítilla stympinga sem hafi endað með því að hann hafi rekið vin sinn á dyr. „Það er orðið svo slæmt andrúmsloftið á milli okkar að ég reyni að reka hann út.“ Vinurinn, sem síðar átti eftir að verða fyrir hnífstungunni, hverfur við það á braut.

Ákærði segist hafa verið sár og reiður á þessum tímapunkti og hringt í sameiginlegan vin þeirra til þess að blása yfir atburðum kvöldins.

Í gögnum málsins kemur fram að í símtalinu hafi ákærði beðið um hnúajárn til þess að drepa þolanda. Ákærði sagðist fyrir rétti ekki muna nákvæmlega hvað þeim fór á milli. Sameiginlegi vinurinn, sem hafði raunar verið í gleðskapnum fyrr um kvöldið, sagði fyrir dómi að hann hefði ekki tekið símtalið alvarlega. Þó sendi hann skilaboð síðar þar sem hann spurði hvort hann þyrfti að hafa einhverjar áhyggjur af málinu vegna bónar ákærða.

Þegar ákærði er við að slíta símtalinu kemur þolandi tilbaka vegna þess að hann hafði gleymt rafrettu í hleðslu hjá ákærða. „Hann krefst þess að fá að sækja eitthvað dót. Hann er enn í einhverjum hótunum, alltaf að tala um eineltisbarn og hamrar mikið á því að ég sé með minnimáttarkennd af því að ég hafi verið lagður í einelti.“ Þegar þolandi hefur sótt dótið sitt fer ákærði að gera sig ferðbúinn í bæinn. Hann segist hafa verið hræddur um að vinur sinn myndi sitja fyrir sér en hann hafi samt sem áður viljað fara í bæinn sökum þess að hann hafi lofað kærustu sinni að hitta hana þar. Því hafi hann tekið með sér hníf úr eldhúsinu sökum þess að hann er mun minni og léttari en vinurinn.

„Útaf öllu þessu ofbeldistali og öllum þessum hótunum þá tek ég hnífinn með mér bara svona til öryggis, ef hann skyldi ráðast á mig. Ég rölti út í bíl til að sækja hanska. Planið var að sækja hanskana og henda hnífnum inn. Þá kemur hann allt í einu askvaðandi.“ Síðar sagðist hann heldur hafa viljað sleppt því að taka hnífinn með. 

Sjá einnig: Rifrildi háskólanemana snerist um þriðja aðila



Ákærði segir vininn hafa viljað fara aftur í íbúðina sína en hann hafi neitað því. Þá hafi þolandi reiðst og slegið til hans. Greinir ákærði frá því að hann hafi skallað sig í andlitið. Þegar hann hafi reitt hnefann til höggs hafi ákærði vikið sér utan svo vinurinn geigar. Þá hafi ákærði tekið eldhúshnífinn upp úr vasanum og stungið hann í bakið.

Engin saga um ofbeldi í vinskap mannanna

Ákærði var spurður út í það hvort einhver saga um ofbeldi væri í vináttu mannanna. Hann viðurkenndi að svo væri ekki en sagði félaga sinn ekki hafa virst hann sjálfur þetta kvöld sökum ofurölvunar. Hann hafi heldur aldrei áður gert lítið úr honum.

Eftir framburð ákærða kom þolandi í dómsal. Hann hafði aðra sögu að segja af kvöldinu. Hann viðurkenndi að hafa tekið mynd af kærustu ákærða en að þeir hafi verið vinir í fleiri ár og því hafi hann átt að gera sér grein fyrir því að um góðlátlegt grín hafi verið að ræða. Maðurinn sagðist ekki hafa gert sér grein í fyrstu að ákærði væri jafnreiður og raun bar vitni.

Maðurinn sem stunginn missti meðvitund í stigagangi þar sem íbúar hússins hlúðu að honum. Hann var fluttur á slysadeild nokkrum mínútum síðar.Vísir
Maðurinn skrifaði niðrandi athugasemd á myndina sem var tekin á Snapchat: „Bitch got a fat azz.“ Hann viðurkenndi að þetta hefði verið barnaleg mynd en að enginn kynferðislegur undirtónn hefði verið í henni eða nokkuð slíkt.

„Ég er ekkert að pæla í þessari mynd um kvöldið,“ segir þolandi. „Þetta er ekkert mál fyrir mér. Ef hann hefði ekki verið aðili þarna, ef þetta hefði verið kærasta einhvers annars þá hefði hann verið fyrstur til að hlæja. En þegar við erum einir eftir fer ég taka eftir því að fer að verða reiðari og reiðari. Ég náttúrulega tek þessu ekkert alvarlega, ég skildi ekkert af hverju hann er að láta svona. Ég fer þess vegna að spyrja hann hvort þetta sé kannski útaf einhverju öðru.“ Mennirnir hafa verið vinir í tæplega tíu ár og segir þolandi að ákærði hafi stundum skapað vandamál þegar hann er undir áhrifum áfengis.

Þolandi yfirgefur íbúðina eftir rökræðurnar. Hann hafnar því alfarið að hann hafi hótað vini sínum líkamsmeiðingum, hann segist enga sögu eiga um ofbeldi og hann hafi aldrei lent í slag. Hann sendi ákærða eftir að hann fór skilaboð á Facebook þar sem sagði: „Það er allt í lagi ef þú ert með minnimáttarkennd.“



Þolandi taldi sig hafa sæst við ákærða

Hann sagðist þó aðspurður ekki hafa talað um einelti við ákærða. Hann sagðist í raun ekki hafa vitað neitt til þess að ákærði hafi verið lagður í einelti á barnsaldri. „Ég veit ekkert um það. Mér finnst þetta fáránleg ásökun. Að fullorðnir menn séu að kalla hvern annan eineltisbörn.“

Maðurinn man eftir því að hafa farið aftur upp í íbúð ákærða eftir að hann yfirgaf hana til þess að sækja rafrettu sína.

„Þetta er smá óskýrt hjá mér. En mér finnst eins og við höfum náð sáttum. Ég vissi ekki að það væri einhver meiri undirliggjandi reiði.“ Hann yfirgefur íbúðina að nýju og hitti ákærða svo fyrir utan þegar ákærði kom út úr íbúðinni. Maðurinn man lítið annað en að hann hafi sest upp í bíl með ákærða og þar borið undir hann mynd sem lýsti „unstable hegðun sem hann sýnir oft“ undir áhrifum áfengis.

Hann man svo ekkert fyrr en hann rankaði við sér á spítala seint í mars. „Það er bara martröð sem ég vakna upp í á spítalanum. Í kringum 20. mars þá vissi ég hvað hafði gerst, hvað hafði komið fyrir. Fyrir þann tíma var ég í dái. Ég man bara einhverjar martraðir þarna, þetta er allt mjög draumkennt.“

„Ég hugsa þá bara: ég ætla að drepa mig“

Framburður ákærða stendur því einn um hvers kyns átökum mennirnir áttu í fyrir hnífstunguna, ákærði segir þolanda hafa rifið úlpuna sína og kýlt sig í framan. Er framburður ákærða að nokkru leyti studdur af vitni sem sá mennina kýla hvorn annan. Þá lýsa tvö vitni því að þau hafi séð ákærða hörfa undan þolanda en telja þó ekki að hann hafi verið ógnandi.

Ákærði segist hafa verið í mikilli geðshræringu, hann hafi verið reiður og nokkuð drukkinn. „Það sem gerist við það að vera kýldur er að það kikkar inn einhver sjálfsbjargarviðleitni.“

Ákærði var með glóðurauga eftir nóttina sem hann segir hafa komið eftir högg frá þolanda. Þolandi bendir á að engir áverkar hafi fundist á hnúum sínum og að honum þyki líklegra að ákærði hafi veitt sér sjálfur áverkana, hann sé löglærður maður og því gert sér grein fyrir alvarleika þess sem hann hafði gert. Hann skilur því ekki hvers vegna vinur hans hafi stungið hann í bakið.

Ákærði segist í fyrstu ekki hafa áttað sig á því hversu særður vinur hans hafi verið eftir hnífstunguna. „En við það að sjá blóðið þá rennur þetta upp fyrir mér. Ég fer í algjört panikk, geri mér grein fyrir því að ég hef sært hann. Ég brýt hnífinn, brýt blaðið frá skaftinu. Hleyp eitthvað uppeftir og hendi hnífsblaðinu í einhvern rusladall.“ Hann segist þó samstundis hafa áttað sig á því að gjörðir sínar væru órökréttar, að það væri ekki rétt að flýja. „Ég hugsa þá bara: ég ætla að drepa mig. En mér dettur ekki í hvernig ég get gert það.“ Þær fyrirætlanir hafi því orðið að engu.

Ákærði hélt því aftur á vettvang glæpsins, eftir að hafa reynt að ná sambandi við vin sinn til þess að athuga með líðan hans. Þar hafi hann gefið sig fram við lögreglu og var færður í lögreglubíl.

Sjá einnig: Hnífstunga á stúdentagörðunum: Gerandinn laus úr haldi

„Ég geri mér ekkert grein fyrir því fyrr en daginn eftir í skýrslutöku hvað ég hafði gert hræðilegan hlut,“ sagði ákærði og röddin brast.

Á meðan á þessu stóð stumruðu íbúar við Sæmundargötu yfir þolanda í stigagangi stúdentagarðanna þar sem hann var nær meðvitundarlaus og fölur af blóðleysi. Kvartaði hann yfir sársauka.



Stunginn af vini sínum til margra ára

Maðurinn segir hnífstunguna hafa haft ótrúlega mikil áhrif á líf sitt. Hann missti mikið blóð þar sem hann barðist fyrir lífi sínu. „Þið getið rétt ímyndað ykkur hvaða áhrif þetta hefur á líkamann. Ég hef lítið þrek, er með hausverk en má ekki taka nein verkjalyf út af þeim áhrifum sem það hefur á lifrina.“ Hann er þreyttur, þarf að hvíla sig oft á dag og getur ekki unnið. Hann missti fimmtán kíló og gat ekki neytt matar lengi eftir árásina. Þá kom fram að hann hafi þurft að fresta útskrift sinni úr háskóla en það þykir honum sérstaklega leiðinlegt.

Þá hefur málið eðli málsins samkvæmt haft afleiðingar á andlega líðan mannsins. „Þetta er vinur sem þú treystir og þú kemst að því að hann hafi stungið þig í bakið með hníf,“ sagði maðurinn. „Og að hann hafi haft áætlanir um að drepa mig.“ Hann sagði ólíklegt að nokkur í dómsal gæti ímyndað sér hvernig það sé að vakna upp og komast að því að maður hafi verið stunginn af vini sínum til margra ára, af manneskju sem maður treystir.

Fram kom í máli réttargæslu manns að manninum hefur einnig þótt þungbært að fylgjast með umfjöllun um málið í fjölmiðlum. Þar hefur honum þótt erfitt að fylgjast með umfjöllun þar sem ýjað sé að því að um slys hafi verið að ræða og að hann hafi kallað atlöguna yfir sig með hótunum um ofbeldi.

Sem fyrr segir virðist tilviljun hafa ráðið því að bjarga tókst lífi mannsins. Hann var í dái til 20. mars og fékk að fara heim af spítalanum rúmri viku síðar.

Ákæruvaldið gerir kröfu um að ákærði verði dæmdur fyrir tilraun til manndráps og að refsing verði fimm ára fangelsi. Þá er gerð krafa um að hann greiði allan sakarkostnað í málinu og fjórar milljónir í miskabætur til þolanda.

Verjandi mannsins telur ekki rétt að skilgreina glæp ákærða sem tilraun til manndráps þar sem aldrei hafi raunverulegur ásetningur legið til þess að drepa þann sem varð fyrir hnífstungunni. Vill hann að farið verði með málið sem alvarlega líkamsárás.


Tengdar fréttir

Enn haldið sofandi í öndunarvél

Manni sem stunginn var í bakið með hníf aðfaranótt sunnudags við Sæmundargötu í Reykjavík er enn haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×