Erlent

Flugvélin beygði skyndilega áður en hún hvarf

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Varnarmálaráðherra Grikklands, Panos Kammenos, segir að MS804 flugvél EgyptAir hafi verið beygt skyndilega áður en hún hvarf af ratsjám og brotlenti. Fyrst hafi hún beygt í 90 gráður til hægri og svo í heilan hring í hina áttina.

Uppfært 13:00

Flugmálaráðherra Egyptalands segir að líklegra sé að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða en tæknilega bilun. Sérfræðingar segja að beygjur flugvélarinnar gefi sterklega til kynna að ekki hafi verið um sprengjuárás að ræða. Mögulega hafi farþegi(ar) eða áhafnarmeðlimir rutt sér leið inn í stjórnklefann.

Flugvélin var á leið frá París til Kaíró með 66 manns innanborðs þegar hún brotlenti í Miðjarðarhafinu. Ekkert brak úr vélinni hefur fundist en Egyptar, Frakkar og Grikkir hafa sent flugvélar og skip til leitarinnar.

Sjá einnig: Of snemmt að segja til um orsök slyssins

Grískir flugumferðarstjórar ræddu við flugstjóra flugvélarinnar um klukkustund áður en hún brotlenti og þá amaði ekkert að. Þegar flugvélinni var flogið úr flugumferðarsvæði Grikkja reyndu þeir aftur að ná sambandi við flugstjórann en ekkert gekk. Tveimur mínútum síðar hvarf hún.

Sjá einnig: Egypsk flugvél hvarf yfir Miðjarðarhafi

Í fyrstu bárust fregnir af því að neyðarboð hefði borist frá flugvélinni þegar hún hvarf, en það hefur verið dregið til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×