Menning

Morgundagurinn kemur aldrei

Stefán Pálsson skrifar
Stefán Pálsson skrifar Sögu til næsta bæjar í helgarblað Fréttablaðsins á laugardögum.
Stefán Pálsson skrifar Sögu til næsta bæjar í helgarblað Fréttablaðsins á laugardögum.
Árið 2001 sendi Arnaldur Indriðason frá sér glæpasöguna Grafarþögn, þar sem lögregluþjónarnir Erlendur, Sigurður Óli og Elínborg tókust á við enn eina flóknu morðgátuna. Sagan gerist á tveimur tímasviðum. Í Reykjavík samtímans þar sem mannabein finnast í nýjum húsgrunni í Grafarholti annars vegar, en hins vegar á sömu slóðum árið 1940. Grafarþögn tekst öðrum þræði á við heimilisofbeldi, en minningarleiftrin úr fortíðinni fjalla að miklu leyti um eiginmann sem beitir konu sína grófu og margítrekuðu andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Níðingurinn reynir m.a. að niðurlægja konuna með háðsglósum um að hún sé lausaleikskrógi og hafi komið undir í geymi Gasstöðvarinnar í Reykjavík í gjálífisveislum sem þar voru haldnar um það leyti sem landsmenn óttuðust að heimsendir væri í nánd. Konan, Margrét, veit reyndar að það fær ekki staðist þar sem tímasetning þeirra atburða gengur ekki upp miðað við aldur hennar. Ofbeldis­maðurinn kærir sig kollóttan um slík smáatriði og heldur áfram að hlæja að eigin fyndni.

Í þessu smáatriði vísar sagnfræðingurinn Arnaldur til sögu sem gekk í munnmælum Reykvíkinga á milli um áratuga skeið. Þó sjaldnast nema í hálfkveðnum vísum. Vorið 1910 átti halastjarnan sem kennd er við stjörnufræðinginn Edmond Halley leið fram hjá Jörðinni, líkt og hún gerir á 75-76 ára fresti.

Ógn og skelfing

Halastjarna þessi fer býsna nærri Jarðarbúum og er áberandi á himninum um nokkurra vikna skeið. Koma hennar hefur í gegnum tíðina vakið athygli og er hennar víða getið í fornum ritum og annálum. Oftar en ekki þótti hún boða stórtíðindi, þannig er stjarnan áberandi á hinum fræga Bayeux-refli, sem er útsaumað listaverk sem sýnir helstu viðburði ársins 1066 í Englandi, þ.?á?m. orrustuna við Hastings.

Árið 1910 álitu fæstir að halastjörnur gæfu vísbendingar um stórstyrjaldir eða konungaskipti – þótt raunar hafi bandaríski spéfuglinn Mark Twain gantast með að hann hefði komið í heiminn síðast þegar Halley-stjarnan fór framhjá og myndi því væntanlega deyja núna. Það gaman varð grárra þegar Twain lést daginn eftir að halastjarnan hvarf sjónum manna.

En þótt trúin á forspárgildi halastjarna hefði dofnað, urðu margir skelkaðir. Stjörnufræðingar reiknuðu út að engin hætta væri á árekstri Jarðar við halastjörnuna sjálfa, en að mögulega myndi Jörðin fara í gegnum hala hennar. Kviknuðu getgátur um hvaða hörmungar það gæti haft í för með sér. Fullvíst var talið að eiturgufur og brennandi sýrur væri að finna í halanum. Ef til vill væri heimsendir í nánd.

Það var einkum franskur stjörnufræðingur, Nicolas Camille Flammarion, sem hélt heimsendaspám á lofti. Flammarion var enginn afburða stjörnuvísindamaður, en þeim mun frægari sem höfundur alþýðlegra fræðirita og höfðu vangaveltur hans því meira að segja í huga almennings en annarra vísindamanna. Var þetta hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem Flammarion, sem var áhugamaður um samskipti við geimverur, spíritisma og framhaldslíf, spáði allsherjartortímingu vegna eitrunar úr geimnum. Þótt flestir vísindamenn hafi hafnað spádómum sem þessum, lá í hugum margra undir niðri nagandi spurningin: hvað ef?…?

Hlegið að hættunni

Það eru eðlileg mannleg viðbrögð gagnvart óviðráðanlegri ógn að grípa til gamansemi. Um allan hinn vestræna heim teiknuðu skopmyndateiknarar myndir af árekstrum Jarðar og halastjörnunnar, þar sem gantast var með endalok veraldarinnar. Fyrir þá sem muna kjarnorkuógnina á 9. ?áratugnum er þetta heimsenda­glens skrítið og óskiljanlegt, en þá verður að hafa í huga að það var í höndum mannkynsins að stöðva kjarnorkukapphlaupið, en halastjörnur eru handan áhrifasviðs manna og því allt eins gott að skopast.

Sálfræðingar gætu vafalítið skrifað lærðar ritgerðir um hvernig beygur fólks vegna halastjörnunnar fékk útrás í flökkusögum sem gengu út á að skopast að ótta annarra. Dagblöð fluttu fregnir frá fjarlægum löndum af fólki sem varð svo sturlað af ótta við hamfarirnar að það greip til kjánalegra ráða eða réð sér jafnvel bana.

Vinsælar útgáfur þessara sagna snerust um fólk sem ákvað að sletta úr klaufunum áður en Jörðin færist: auðmönnum sem sólunduðu öllu sínu fé í tryllt veisluhöld eða jómfrúm – jafnvel nunnum – sem ákváðu að láta meydóminn lönd og leið áður en Ragnarök skyllu á. Vitaskuld þótti bráðfyndið að velta fyrir sér umkomuleysi þess ríka sem glatað hafði aleigunni í trylltum gleðskap eða óléttu, föllnu konunum, sem þurftu nú að súpa seyðið af trúgirni sinni. Aðrir sögðu sögur af skottulæknum sem prangað hefðu inn á hrekkleysingja fokdýrum pillum sem ættu að verja fólk fyrir eiturgufum halastjörnunnar og víst er að sala á gasgrímum tók kipp.

Kötturinn í örbylgjuofninum

Vissulega fela flökkusögur oft í sér sannleikskjarna. Þær eiga jú að vera trúverðugar og segja frá hlutum sem gætu gerst. Og auðvitað er ekki loku fyrir það skotið að einhvers staðar í útlandinu hafi ógæfusöm kona stungið kettinum sínum í örbylgjuofn eða fjölskylda á sólarströnd tekið ástfóstri við risavaxna rottu. Í langflestum tilvikum hafa sögurnar magnast upp í endursögnum og þær gerðar trúverðugri með því að tengja þær ónafngreindum ættingja eða vinnufélaga.

Í því ljósi er líklega réttast að skoða sögurnar af gleðskapnum í geymi Gasstöðvarinnar dagana í kringum komu halastjörnunnar. Þær enduróma sambærilegar sögur sem spruttu vestan hafs og austan. Allir höfðu heyrt af heimsendaveislum af þessu tagi, en fæstir upplifað í eigin persónu. Hitt er annað mál að sumarið 1910 var vissulega unnið að byggingu Gasstöðvar í Reykjavík. Ýmsir tæknisinnaðir bæjarbúar höfðu kallað eftir því að komið yrði upp rafveitu í höfuðstaðnum, enda rafljós talin skýrasta birtingarmynd hátækni og nútímavæðingar. Eftir nokkra yfirlegu ákvað bæjarstjórn þó að veðja fyrst á gasið, því þótt rafljós væru talin bera af gasljósum, mátti nota gas til eldunar og leysa móinn af hólmi sem aðaleldsmatinn í eldavélum Reykvíkinga.

Í dag tengja líklega flestir gaseldun við kúta með jarðgasi sem endurnýja má á næstu bensínstöð. Gasstöðvar í byrjun 20. aldar framleiddu hins vegar svokallað kolagas. Sérstök afbrigði kola voru hituð upp í ofnum í sjálfri gasstöðinni. Við það losnuðu gas og tjara úr kolunum, sem ummynduðust í koks sem unnt var að nota sem eldsneyti. Gasið var þessu næst hreinsað með flóknum hætti og leitt í gasgeymi, þaðan sem það streymdi eftir gaslögnum og inn á heimilin.

Þýskir gestir

Þar sem bæjarsjóður stóð frammi fyrir stórframkvæmdum, einkum á sviði hafnargerðar, varð úr að fá einkaaðila til að reisa og reka Gasstöðina. Þýskt fyrirtæki, Carl Francke, átti hagstæðasta tilboðið. Það hafði reist sambærilegar stöðvar allt frá Japan til Noregs.

Reykvískir verkamenn voru ráðnir til að grafa upp götur Reykjavíkur fyrir gaspípur, en að öðru leyti var það vinnuflokkur á vegum Carls Francke sem sá um framkvæmdir. Stór og vaskur hópur ungra manna.

Þegar frí gafst frá stritinu vildu Þjóðverjarnir skiljanlega lyfta sér upp. Vafalítið hefur hópur vörpulegra og kátra útlendinga vakið áhuga heimamanna í fásinninu og eflaust margir litið í gleðskapinn. Alls ekki er ólíklegt að hálfkláruð gasstöðvarbyggingin eða jafnvel tómur geymir hennar hafi verið vettvangur fyrir slíkar veislur. Á sama hátt þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér að fólk hafi gantast með halastjörnuna á himninum og haft í flimtingum að rétt væri að drekka og dansa úr því að heimsendir væri í nánd. Veigaminni átyllur hefur ungt fólk notað til að fara á kenderí.

Og með tímanum urðu sögurnar safaríkari, partíið trylltara og saurlifnaðurinn meiri. Sagan um heimsendaveislurnar í gasstöðvargeyminum er dæmigerð flökkusaga, en getur sem slík sagt okkur mikla sögu. Meðal annars hversu lítilfjörleg mannvirkin í Reykjavík voru árið 1910 úr því að einhver skuli hafa trúað því upp á samborgara sína að þeir teldu að lítill járntankur inni við Rauðará gæti gefið vörn fyrir halastjörnuárekstri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×