Erlent

Lögreglan í Köln réði ekki við ástandið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Í skýrsla lögreglunnar í Köln um árásirnar á konur á nýársnótt segir að lögregluþjónar hafi ekki ráðið við ástandið sem skapaðist, svo mikið var um að vera.
Í skýrsla lögreglunnar í Köln um árásirnar á konur á nýársnótt segir að lögregluþjónar hafi ekki ráðið við ástandið sem skapaðist, svo mikið var um að vera. Vísir/Getty

Innanhússkýrsla lögreglunnar í Köln gefur til kynna að lögregluþjónar þar í borg hafi ekki ráðið við ástandið sem skapaðist þegar hópur karlar réðist að tugum kvenna á nýársnótt.

Í skýrslunni eru lýsingar á því sem lögreglumenn urðu vitni að þegar þeir komu á vettvang en háttsettur embættismaður innan lögreglunnar segir að ástandið hafi verið svívirðilegt og að allt hafi verið á tjá og tundri.

Sjá einnig: Íslendingur í Köln: „Fór heim þegar ég sá ástandið magnast upp“

Þegar lögregluþjónar mættu á lestarstöðina í Köln þar sem árásirnar áttu sér stað mættu þeir hræddum borgurum og segjast lögreglumenn hafa séð þúsundir karlmanna kastandi flugeldum og flöskum að hópi fólks.

„Lögregluþjónarnir réðu ekki við ástandið, það var einfaldlega of mikið að gerast í einu,“ segir í skýrslunni en samkvæmt nýjustu tölum frá lögreglunni í Köln hafa 121 mál verið kærð sem rekja má til ástandins á nýársnótt við lestarstöðina í Köln.

Sjá einnig: Árásirnar í Köln: Lögreglan þarf að endurskoða starfsaðferðir sínar

Lögreglan hefur sætt gagnrýni í tengslum við árásirnar en upphafleg skýrsla hennar gaf til kynna að andrúmsloftið í Köln hafi verið afslappað á nýársnótt.

Þá hafa ummæli borgarstjórans í Köln, Henriette Reker, vakið furðu og gagnrýni á samfélagsmiðlum, en hún sagði konur þurfa að gæta þess að halda sig í hæfilegri fjarlægð við aðstæður sem þessar. 


Tengdar fréttir

Ofbeldi gegn konum í Köln vekur mikla reiði

Lögreglan í Köln hefur viðurkennt margvísleg mistök í tengslum við kynferðisofbeldi sem tugir kvenna urðu fyrir á gamlársdag. Innanríkisráðherra Þýskalands krefst skýringa. Lögreglustjórinn segist ekki ætla að segja af sér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira