Erlent

Þýska þjóðin skekin vegna skipulagðra árása á tugi kvenna á gamlárskvöld

Atli Ísleifsson skrifar
Aðallestarstöð Kölnarborgar.
Aðallestarstöð Kölnarborgar. Vísir/EPA
Borgarstjóri Kölnarborgar í Þýskalandi hefur boðað yfirmenn lögreglu til neyðarfundar eftir að um áttatíu konur tilkynntu um að hafa orðið fyrir kynferðisárás og verið rænt á gamlárskvöld.

Í frétt BBC segir að umfang árásanna á konurnar við aðallestarstöð borgarinnar hafi skekið þýsku þjóðina. Um þúsund ölvaðir, ungir karlmenn áttu þátt í árásunum.

Lögreglustjórinn Wolfgang Albers hefur lýst árásunum sem „algerlega nýrri vídd af glæpum“. Hann segir að svo virðist sem árásarmennirnir hafi flestir verið frá Arabaríkjum eða ríkjum Norður-Afríku.

Í fréttinni kemur fram að að minnsta kosti einni konu hafi verið nauðgað og fjölmargar hafi verið áreittar kynferðislega. Telur lögregla að árásirnar hafi verið skipulagðar, þar sem fjölmennir hópar karla beindu spjótum sérstaklega að konum.

Einnig var tilkynnt um sambærilegar árásir í Hamborg og Stuttgart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×