Fótbolti

Heimir vill vinna endalaust með Lars

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck.
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck. Vísir/AFP

Ummæli Heimis Hallgrímssonar í viðtali við Áramótablað Viðskiptablaðsins hafa vakið athygli. Þar sagði Heimir að hann væri ekki viss um að hann myndi læra meira af því að starfa með Lars Lagerbäck í tvö ár í viðbót.

Heimir útskýrði ummæli sín á blaðamannafundinum í gær og gekkst við því að það hafi verið mistök að tala ekki skýrar.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Lars og hef lært mikið af honum. Það hef ég margsagt. Hann er í raun einn af mínum bestu vinum í dag,“ útskýrði Heimir enn fremur. „Ég myndi vilja vinna endalaust með honum eins og staðan er í dag.“

Heimir minntist á það í viðtalinu að hann væri með samning þess efnis að hann tæki alfarið við sem landsliðsþjálfari eftir EM í sumar. En nú hefur komið til tals að breyta því og að Lars Lagerbäck deili hlutverki landsliðsþjálfara áfram með Heimi fram yfir HM 2018.

„Ef Lars heldur áfram þarf ég eðlilega að setjast niður með mínum yfirmönnum og fara yfir minn samning. Það var það eina sem ég sagði í þessu viðtali og það er engin kergja eða neitt slíkt sem er að skemma fyrir okkar samstarfi. Við erum allir reiðubúnir að tala saman og komast að niðurstöðu um þessi mál.“

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, hefur áður sagt að von sé á svari frá Lars Lagerbäck um framtíðina í næsta mánuði.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira