Menning

Hugmyndavinna fyrir opnum tjöldum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Úlfur kemur fram á tónleikum í Mengi í kvöld.
Úlfur kemur fram á tónleikum í Mengi í kvöld. Vísir/Anton
„Það er svolítið svona konseptið að vera ekki með of mikið af hljóðfærum og ekki neitt undirbúið, það er enginn grunnur eða neitt svoleiðis sem ég byrja á,“ segir Úlfur Eldjárn, tónskáld, hljóðfæraleikari og raftónlistarmaður, sem kemur fram á tónleikum í Mengi í kvöld.

„Ég mæti bara með frekar takmarkað úrval af hljóðfærum og tölvu og svo bara set ég í gang og byrja bara að gera eitthvað og sé hvert það leiðir mig,“ segir Úlfur og bætir við: „Þetta er svona millistig á milli þess að vera að spinna eitthvað og semja.“

Tónleikarnir eru teknir upp og er hugmyndin að endurvinna efnið síðar meir. „Ég hef gert þetta áður og það hefur komið skemmtilega út. Stundum kemur eitthvað alveg frábært og stundum eitthvað ekki alveg jafn frábært,“ segir Úlfur en hann hefur haldið viðlíka tónleika á ýmsum stöðum.

„Þetta er sería hjá mér, ég er búinn að gera þetta nokkrum sinnum við mismunandi aðstæður; tónleika, kokteilboð, góðgerðarsamkomur og á ýmsum stöðum. Síðan, af því ég tek þetta allaf upp á margar rásir, þá ætla ég einhvern tímann með tíð og tíma að vinna eitthvað úr þessu.“

Hann segir ákveðna áskorun fólgna í því að standa uppi á sviði án þess að vera með tilbúið efni.

„Þetta er námskeið í því að vera ekki að hugsa of mikið um hvað fólkinu sjálfu finnst, maður er bæði meðvitaður um það en um leið þarf maður svolítið að hundsa það því annars kemur ekki neitt. En það getur alveg gerst að ég verði alveg andlaus líka,“ segir Úlfur hress og bætir við: „En það sem er svo skemmtilegt við þennan tónleikastað, Mengi, er að hann býður upp á svona tilraunakenndari viðburði. Þá leyfist manni ýmislegt.“

Úlfur er meðlimur í Apparat Organ Quartet auk þess að hafa samið töluvert af tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp, leikhús og aðra miðla og gefið út eigið efni. Í mars er væntanlegt frá honum gagnvirka tónverkið Strengjakvartett nr. ∞.

„Það er svolítið sérstakt dæmi, gagnvirkt tónverk sem verður á netinu. Það virkar þannig að fólk fer inn á ákveðna síðu og hlustar á verkið þar og stjórnar því í rauninni hvernig verkið er.“

Verkið verður frumflutt á Hönnunarmars 2015 en Sigurður Oddsson hönnuður og Halldór Eldjárn, forritari og tónlistarmaður, koma einnig að verkinu. Tónleikarnir hefjast klukkan níu í Mengi og er miðaverð 2.000 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×