Erlent

Fjórtán látnir í skotárás í Kaliforníu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lögregla er á staðnum
Lögregla er á staðnum vísir/epa
Lögregla og FBI eru nú stödd í San Bernardino í Kaliforníuríki en þar hófu menn skothríð fyrir um klukkustund. Í frétt BBC um málið er talað um tuttugu fórnarlömb og í sjónvarpsútsendingu CNN er sagt frá því að árásarmennirnir séu líklega fleiri en einn.

Lögregla og slökkvilið vinna nú hörðum höndum að því að girða svæðið af og koma fólki í öruggt skjól. Mennirnir eru vel vígbúnir en óstaðfestar heimildir herma að þeir séu brynvarðir.

Þessi frétt verður uppfærð um leið og frekari upplýsingar berast.

Uppfært 23.25: Lögreglan hefur fellt einn árásarmannanna og króað hina tvo af.

Uppfært 21.55:
Blaðamannafundur fór fram fyrir utan Inland Regional Center í San Bernardino fyrir skemmstu. Þar kom fram að minnst fjórtán væru látnir og allavega fjórtán lægu sárir á sjúkrahúsi.

Að sögn barst fyrsta tilkynning um árásina skömmu fyrir klukkan ellefu að staðartíma. Mennirnir mættu þá inn í bygginguna og hófu að skjóta á fólk. Rúmlega fimmhundruð voru þá í byggingunni. Þeir sem komust ósærðir úr árásinni hafa verið færðir í öruggt skjól og er nú verið að yfirheyra þá.

Uppfært 21.15: 
Talið er að minnst einn árásarmannanna hafi náð að flýja vettvang og stendur leit að honum nú yfir. Ekki er vitað hvort að fleiri hafi komist undan. Tölur af mannfalli eru enn á reiki.

Skotárásin í dag er 355. skotárásin í Bandaríkjunum þar sem fjórir eða fleiri láta lífið. 2. desember er 336. dagur ársins þannig það gerir rúmlega eina árás á dag. Þá eru ótalin öll þau tilvik þar sem færri en fjórir láta lífið.

Sérsveitarmenn sendu sprengjuvélmenni inn í Indland Regional Center þar sem dularfullur böggull fannst. Ekki hefur fengist staðfest hvort þar var á ferðinni sprengja eður ei.

Uppfært 20.30: Árásin átti sér stað á Inland Regional Center sem er þjónustumiðstöð fyrir fólk með ýmisskonar þroskaskerðingu. Heimildir ABC herma að tólf séu látnir en sú tala hefur ekki fengist staðfest.

Myndin sýnir staðsetningu San Bernardinomynd/google maps



Fleiri fréttir

Sjá meira


×