Erlent

Rússar verði settir í bann

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kanadamaðurinn Richard Pound, formaður rannsóknarnefndar Alþjóðalyfjaeftirlitsins, kynnti niðurstöður skýrslunnar um Rússa á blaðamannafundi í Sviss í gær.
Kanadamaðurinn Richard Pound, formaður rannsóknarnefndar Alþjóðalyfjaeftirlitsins, kynnti niðurstöður skýrslunnar um Rússa á blaðamannafundi í Sviss í gær. Fréttablaðið/EPA
Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin, WADA, segir nauðsynlegt að banna Rússum þátttöku í frjálsum íþróttum vegna þess hve mikið sé um notkun ólöglegra lyfja.

Nefndin rannsakaði ásakanir og grun um víðtæka lyfjamisnotkun meðal rússneskra íþróttamanna, yfirhylmingu með henni og þving­anir íþróttamanna til að taka þátt í slíku.

Nefndin segir að með þessu framferði hafi Rússar unnið skemmdarverk á Ólympíuleikunum í London árið 2012.

Dick Pound, formaður rannsóknar­nefndar WADA, segir engu líkara en Rússland haldi uppi ríkisstuddri lyfjamisnotkun íþróttamanna.

Stjórnvöld hafi ítrekað látið lyfjamisnotkun afskiptalausa, og meira að segja virðist Alþjóðafrjálsíþróttasambandið flækt í málið, að sögn Pounds.

Pound segir þó að núverandi forseti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, Coe lávarður, njóti fulls stuðnings síns til starfsins. Honum sé treystandi til að taka á þessu.

Coe sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði upplýsingarnar í skýrslunni frá WADA vekja miklar áhyggjur. Hann muni reyna að afla stuðnings frá stjórn sambandsins við refsiaðgerðir gegn Rússum, þar á meðal hugsanlega brottvísun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×