Innlent

„Höfum fundið rottur á þriðju hæð í fjölbýlishúsi“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hér má sjá rottu í lögn í húsi í höfuðborginni.
Hér má sjá rottu í lögn í húsi í höfuðborginni. Mynd/Proline
„Við sjáum rottur í hverri einustu viku. Fyrir stuttu vorum við til dæmis í fjölbýlishúsi þar sem þær voru komnar í eldhús á annarri og þriðju hæð þess,“ segir Andri Svavarsson hjá Proline. Rottur í borginni hafa talsvert verið í umræðunni að undanförnu enda orðnar sýnilegri en oft áður.

Andri Svavarsson var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi um rottur og ástand lagna í borginni. Proline er eitt þeirra fyrirtækja sem ástandsskoðar og lagfærir frárennslislagnir í húsum.

„Það er rétt að fólk láti kanna lagnirnar hjá sér sérstaklega ef það býr í húsi sem var byggt fyrir 1980. Þá hættu steinrörin að mestu og plaströrin tóku við. Steinrörin endast ekki nema í um fjörutíu ár og þarf þá að lagfæra þau.“

Rottur eru seig dýr sem geta nagað sig í gegnum mjög margt. Andri nefnir dæmi þess að hann hafi séð það gerast að rottur hafi nagað sig í gegnum steypu sem ekki var almennilega hörnuð. „Þar sem rörin eru orðin lúin fara þær auðveldlega í gegn.“

Hér má sjá myndband sem Andri tók í lögnum húss í borginni. „Þetta sýnir vel þar sem lagnir hafa dregist í sundur og það myndast gat milli samskeyta. Í myndbandinu sjást rotturnar koma sér út um samskeytin og koma sér upp bæli,“ segir Andri.

Þegar nagdýrin hafa komið sér fyrir í rörunum vilja þær gera sig heimakomnar og stofna þar fjölskyldu. Það tekur rottur um ellefu vikur að vera kynþroska, meðgöngutími er tæpur mánuður og ættartengsl skipta ekki höfuðmáli við val á maka. Þær gjóta yfirleitt ekki oftar en fimm sinnum á ári. Allt að átta ungar geta komið í hverju goti.

„Þegar við rennum myndavélunum inn í lagnirnar fælast þær oft í fyrstu en snúa svo aftur þar sem þær eru forvitnar að sjá hvað þetta er sem er að skoða þær. Þær eru miklir skaðvaldar. Oft maka þær jarðvegi inn í rörin og stífla þau og svo viljum við ekki sjá þær í húsunum okkar,“ segir Andri. „Ég veit til dæmis um konu sem vaknaði með bitför í andlitinu eftir að rotta komst inn til hennar.“

Fyrr í vikunni ræddi Vísir við Ólaf Heiðarsson meindýraeyði hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar. Hans tilfinning var að rottum væri ekki að fjölga en ýmsar framkvæmdir og lélegt ástand lagna gerðu þær sýnilegri.

Hér fyrir neðan má hlusta á viðtalið við Andra úr Bítinu á Bylgjunni í morgun.


Tengdar fréttir

Rottur laðaðar að vatnsverndarsvæði

Heilbrigðinefnd Suðurnesja afturkallaði fyrir skömmu starfsleyfi Gámaþjónustannar til moltugerðar við svokallaðan Patterson flugvöll á gamla varnarliðssvæðinu í Njarðvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×