Innlent

Rottur sýnilegri í borginni en fyrri ár

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Það skal tekið fram að þessi rottuhrúga er ekki íslensk.
Það skal tekið fram að þessi rottuhrúga er ekki íslensk. vísir/getty
„Mín tilfinning er að þetta sé nokkuð svipað og undanfarin ár,“ segir Ólafur Heiðarsson, meindýraeyðir hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, aðspurður um hvort meira sé af rottum í borginni nú en áður.

Sú rotta sem við Íslendingar þekkja er brúnrottan sem Norðmenn eru enn ævareiðir að hafi verið gefið nafnið rattus norvegicus. Svartrottan, sem er öllu minni en brúnrottan, er útdauð hérlendis.

„Þær hafa löngum lifað í lögnum víðsvegar um bæinn og þar sem bilanir verða þá birtast þær yfirleitt. Viðbrögð okkar eru snör og málin eru nær undantekningalaust leyst mjög snöggt.“

Undanfarið hefur það verið í umræðuni hvort rottufaraldur sé í Reykjavík enda rottur orðið nokkuð sýnilegri en áður. Ólafur tekur undir þá kenningu að það gæti haft með það að gera að framkvæmdir séu í gangi víða. „Það segir sig eiginlega sjálft. Þær lifa og hrærast í holræsunum og þegar eitthvað raskar ró þeirra þá geta þær farið á flakk og kíkt upp á yfirborðið.“

Ólafur segir einnig að sú mynd sem fólk hefur af rottunum sé oftar en ekki ýkt. „Þetta eru pínulítil spendýr. Þær geta borið með sér ógeð úr klóakinu sem fólki er illa við en síðan knúsar það köttinn sinn sem sökkvir tönnunum sínum í þær á nóttunni,“ segir hann kíminn að lokum.

Smári Sveinsson, meindýraeyðir, var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar sem hann ræddi um meindýr í Reykjavík. Þar bar rottur á góma. „Þær hafa horfið úr fjöruborðinu með tilkomu dælustöðva en þær eru ennþá um allt í holræsunum. Borgin hefur staðið sig vel í að eitra fyrir þeim en ástandið á klóakinu er lélegt ansi víða. Borgin er að gera sitt en húseigendur verða að hugsa betur um lagnirnar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×