Fastir pennar

Kynjuð vísindi, leikskólaráð á villigötum, klámsýki, svipmyndir frá Norður-Kóreu

Sóley Tómasdóttir var frábær í þætti hjá mér um daginn. En ég verð að viðurkenna að ég er ekki alltaf sammála henni. Um daginn skrifaði hún á vef sinn og var heldur óhress yfir úthlutun styrkja úr Nýsköpunarsjóði. Fannst greinilega að alltof margir styrkir færu til karla. Var á Sóleyju að skilja að kynjasjónarmið þyrftu að vera "samþætt" styrkveitingunum.

Nú er það þannig að vísindin gefa sig út fyrir að vera hlutlaus. Í einföldustu mynd ganga þau út á að setja fram tilgátur og sanna eða afsanna með rannsóknum. Ekki hafa þó allir sætt sig við þetta. Trofim Lýsenkó var uppáhaldsvísindamaður Stalíns. Hann setti fram kenningar í erfðafræði sem ollu ómældum skaða í sovéskum landbúnaði en samræmdust marxískri rétthugsun um áhrif umhverfisþátta.

Og nú spyr maður hvort til sé eitthvað sem heiti kynjuð vísindi? Er það hægt? Ég er allavega hræddur um að seint verði stofnað til Nóbelsverðlauna í kynjafræði, enda geta þau tæplega talist vísindi heldur fremur hálf-akademískur klúbbur sem hópur fólks stofnar um lífsskoðanir sínar. Svona ekki ósvipað díalektískri efnishyggju sem haldið var fram að væru vísindi hér í eina tíð.

--- --- ---

Skólinn á að fræða börnin en það eru foreldrarnir sem eru uppalendurnir. Þetta vill stundum gleymast. Í dag las ég um samþykkt leikskólaráðs Reykjavíkurborgar sem hefur ákveðið að dreifa fræðsluefni um kynferðlslegt ofbeldi gegn börnum í leikskólana. Er hvatt til þess að sérstaklega sé fjallað um þessi mál í leikskólunum. Ég skil ekki betur á fréttinni en að sú fræðsla eigi að beinast að börnunum.

Er ég nokkuð einn um að þykja þetta fáránleg hugmynd - að þarna sé skólakerfið að fara út fyrir verksvið sitt? Með þessum hætti veit ég ekkert um hver er að tala um svona viðkvæm mál við barnið mitt eða hvernig. Innan leikskólanna starfar náttúrlega misjafnt fólk eins og annars staðar - sumt af því er ungt lítt menntað fólk, varla komið af unglingsaldri. Það er raunveruleg hætta að þetta rugli huga barna á aldri þegar ímyndunaraflið er mjög virkt og ómótað.

Þetta er ábyggilega vel meint. En misskilningur er það. Þessi hlið uppeldisins á að vera í höndum foreldranna og við verðum að treysta þeim fyrir þessu fremur en ríkinu, stofnunum eða skólanum. Þetta eru alltof erfið mál til að þau eigi vera í verkahring áhugafólks - dilettanta - úti í bæ.

--- --- ---

Ég segi nú bara eins og Kristmann Guðmundsson þegar hann þurfti að verja þýðingu sína á Elskhuga lafði Chatterley: "Þeir sem sjá eitthvað dónalegt við þetta eru dónar sjálfir."

Margur heldur mig sig.

Svona í tilefni af þessari bloggfærslu.

Það er nákvæmlega ekkert klámfengið við umrædda mynd. Hún er bara pínu hallærisleg. Aðallega vorkennir maður stúlkunni að vera í svona kerlingarlegum skóm. Gefur allavega ekki tilefni til þessara orða:

"Hún er tilbúin til þess að láta taka sig aftan frá. Með munninn opinn býður hún lesendum af karlkyni að setja skaufa sína upp í sig."

--- --- ---

Ég veit að það er ljótt að hlæja að Norður-Kóreu. Lífið í því landi er auðvitað dauðans alvara. Samt er eitthvað óumræðanlega fyndið við Kim Jong-il og slekti hans. Allt sem kemur frá þessum stað er svo annarlegt.

Hér er eitt myndband frá Norður-Kóreu og hér er annað. Bæði fjalla þau um hinn stórkostlega leiðtoga þjóðarinnar.








×