Viðskipti erlent

Líkur á samruna flugfélaga

Forstjóri Air France-KLM segir flugfélagið eiga í viðræðum við ítalska ríkisflugfélagið Alitalia sem geti leitt til samruna flugfélaganna.
Forstjóri Air France-KLM segir flugfélagið eiga í viðræðum við ítalska ríkisflugfélagið Alitalia sem geti leitt til samruna flugfélaganna. MYND/AFP
Jean-Cyril Spinetta, stjórnarformaður og forstjóri fransk-hollenska flugfélagsins Air France-KLM, greindi frá því í gær að flugfélagið ætti í viðræðum við ítalska ríkisflugfélagið Alitalia. Viðræðurnar geta leitt til samruna flugfélaganna en slíkt hefur verið á borðinu í langan tíma, að hans sögn.

Spinetti sagði Alitalia hafa átt frumkvæðið að viðræðunum en áréttaði jafnframt að af samruna flugfélaganna geti ekki orðið fyrr en Alitalia, sem hefur átt við viðvarandi hallarekstur að stríða, verði einkavætt og skuldastaða þess bætt verulega.

Viðræðurnar eru ekki nýjar af nálinni enda kom til greina að flugfélögin sameinuðust þegar Air France tók yfir rekstur hollenska flugfélagsins fyrir þremur árum. Þá er krosseignarhald þeirra á milli en franska flugfélagið á tveggja prósenta hlut í Alitalia auk þess sem ítalska flugfélagið á jafn stóran hlut í Air France-KLM.

Air France KLM skilaði 568 milljóna evra eða rúmlega 53 milljarða króna hagnaði á öðrum fjórðungi ársins, sem lauk í enda september. Um methagnað er að ræða.

Gengi hlutabréfa í Air France-KLM féll um rúm 7 prósent í kjölfar ummæla Spinetta í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×