Menning

Frá Ballerup til Skálholts með Missa Brevis í farteskinu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hér er alltaf flutt mikil kórtónlist og ég á helling af efni fyrir kóra, því ég er í tengslum við þá marga,“ segir Stefán.
Hér er alltaf flutt mikil kórtónlist og ég á helling af efni fyrir kóra, því ég er í tengslum við þá marga,“ segir Stefán. Mynd/Þorbjörg Daphne Hall
Söngæfing fyrir laugardagstónleikana er rétt að hefjast hjá kammerkórnum Hljómeyki í Skálholti þegar stjórnandinn og staðartónskáldið þetta sumarið, Stefán Arason, er plataður í símaviðtal.

Hann er ekki á landinu á hverjum degi því hann býr rétt fyrir utan Kaupmannahöfn, í bæ sem heitir Ballerup, og er organisti þar, auk þess að fást við tónsmíðar.

„Ég lærði tónsmíðar í konsvervatoríinu í Árósum og eftir að því námi lauk tók ég organistapróf. Þetta tvennt eru mín helstu viðfangsefni og svo kórstjórnun líka.“

Stefán kveðst stjórna íslenskum kór í Kaupmannahöfn sem heiti Staka og varð tíu ára á síðasta ári. „Í tilefni afmælisins var gefinn út diskur með kirkjulegri kórtónlist eftir mig. Það er einkum þannig tónlist sem ég bý til.“

Honum kom því ekki sérlega á óvart þegar hann var beðinn að vera staðartónskáld í Skálholti.

„Hér er alltaf flutt mikil kórtónlist og ég á helling af efni fyrir kóra, því ég er í tengslum við þá marga.

Eitt verkið samdi ég fyrir þessa sumarhátíð, það heitir Missa Brevis sem þýðir stuttmessa. Hún er bara átta mínútna löng en samt með fjórum köflum, Cyrie, Gloria, Santus og Agnus Dei."

Stefán kveðst hafa verið kirkjusöngvari meðan á náminu í Árósum stóð og verkin Benedictus og Veni Creator Spiritus séu frá þeim tíma. „Benedictus var samið að beiðni organistans í Sankti Páls kirkju í Árósum þar sem ég var söngvari. Veni Creator Spiritus var samið að beinið eins prófastsdæmanna í Árósum og var frumflutt í sameiginlegri hvítasunnuguðsþjónustu allra kirknanna.“

Hann stundaði líka kirkjusöng í Kingos kirkju á Norðurbrú meðan hann lærði orgelleik í Hróarskeldu og leysti stundum organistann af í messum. Fyrir eina messuna vantaði stólvers og samdi Stefán þá nýtt lag við sálm Grundtvigs, Ó syng þínum Drottni.

„En við endum tónleikana á laugardaginn á stærra verki eftir mig sem heitir Future Requiem, eða Framtíðarsálumessa," segir Stefán.  „Það er við texta ljóðskálds sem ég þekki og heitir Jens Carl Sanderhof, sem sótti innblástur í gömlu textana úr Requiem og orti nýja.“

Stefán er Norðfirðingur að uppruna og hóf sitt tónlistarnám við Tónlistarskólann í Neskaupstað. „Ég var hjá Ágústi Ármanni til að byrja með, spilaði á orgel og söng í kirkjukórnum hjá honum, svo lærði ég á píanó líka og trompet og spilaði á allt mögulegt,“ rifjar hann upp. Segir líka mikið sungið í fjölskyldunni og hjá honum hafi legið beint við að leggja tónlistina fyrir sig.

„Ég fór í Menntaskólann í Hamrahlíð og tónlistarskóla í Reykjavík en hélt til Danmerkur árið 2001 og hef búið þar síðan.“

Kynning á stuttmessunni hans Stefáns verður í Skálholtsskóla klukkan 14 þann 11. júlí, tónleikarnir hefjast í kirkjunni klukkan 15 sama dag undir heitinu Syngið nýjan söng og endurteknir á sama tíma á sunnudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×