Viðskipti innlent

FÍB skoðar möguleikann á samkeppni við tryggingafélögin

Bjarki Ármannsson skrifar
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir mögulega tækifæri fyrir nýjan aðila á tryggingamarkaði.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir mögulega tækifæri fyrir nýjan aðila á tryggingamarkaði. Vísir/Auðunn
Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) skoðar nú möguleikann á því að fara út í einhvers konar tryggingastarfsemi á íslenskum markaði. Framkvæmdastjóri félagsins segir markaðinn einsleitan og að mögulega sé þannig tækifæri fyrir nýjan aðila.

„Auðvitað höfum við verið að setja okkur í samband við þá aðila sem við höfum tengst í gegnum árin og gætu mögulega komið til greina sem samstarfsaðilar,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. „En síðan er auðvitað líka alltaf hinn möguleikinn, að einhverjir taki sig til og hreinlega fari út í það að stofna nýtt félag sem myndi leitast við að veita samkeppni á markaði.“

„Ólga í samfélaginu“

Félagið hefur að undanförnu verið duglegt að gagnrýna starfsemi íslensku tryggingafélaganna þriggja; VÍS, Sjóvár og TM. Þá sérstaklega í ljósi himinhárra og umdeildra arðgreiðslna sem félögin leggja til að greiða út til hluthafa sinna vegna síðasta reikningsárs.

Sjá einnig: Munu leggjast gegn arðgreiðslu á aðalfundi VÍS

„Nú framundan eru aðalfundir félaganna og það er kannski von á því að eitthvað gerist þar,“ segir Runólfur. „En eins og staðan er núna þá er það mikil ólga í samfélaginu að það er greinilega hljómgrunnur fyrir því að hér verði eitthvað gert.“

VÍS, Sjóvá og TM munu hafa greitt tæpa 30 milljarða til eigenda sinna frá 2013 gangi áform um arðgreiðslur og endurkaup hlutabréfa eftir. Áformin hafa verið víða gagnrýnd.Vísir
FÍB hefur áður reynt fyrir sér í tryggingabransanum. Félagið fór í samstarf við breska tryggingafélagið Ibex á Lloyd‘s markaðnum árið 1996 og bauð félagsmönnum sínum bifreiðatryggingar undir heitinu FÍB tryggingar. Það varð þó fljótt undir í baráttunni við rótgrónu fyrirtækin hér á landi.

„Á þeim tímapunkti voru yfirlýsingar í farvatninu frá fyrirtækjum hér á markaði um að það þyrfti allt að 25 prósent hækkun iðgjalda ökutækjatrygginga,“ rifjar Runólfur upp. „Þetta fyrirtæki kom inn á haustmánuðunum 1996 og bauð þrjátíu prósent ódýrari tryggingariðgjöld á bifreiðatryggingum en voru fyrir. Viku seinna var allur markaðurinn búinn að lækka sig niður um 25 prósent.“

Sjá einnig: Formaður VR vonar að tryggingafélögin sjái að sér

Runólfur segir tryggingastarfsemi í eðli sínu þannig að hún þurfi talsvert langa aðlögun áður en farið er af stað.

„Þetta gerist ekki á einni nóttu,“ segir hann. „En fyrst byrja menn auðvitað að þreifa og kanna landslagið. Þannig ástand er í augnablikinu að það er vissulega möguleiki á því að það verði farið út í svona aðgerðir.“


Tengdar fréttir

Ný reikningsskil skapa milljarða í arð

VÍS, Sjóvá og TM munu hafa greitt tæpa 30 milljarða til eigenda sinna frá 2013 gangi áform um arðgreiðslur og endurkaup hlutabréfa eftir. Félögin drógu úr afsláttum og hækkuðu iðgjöld í fyrra. Tryggingarekstur á að standa undir sér






Fleiri fréttir

Sjá meira


×