Innlent

Fé verður sett í að framleiða námsefni á táknmáli

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Mörg dæmi eru um að fjölskyldur heyrnarlausra barna hafi flutt úr landi á síðustu þrjátíu árum. Menntamálaráðherra viðurkennir vandann og ætlar að auka fé til Samskiptamiðstöðvar svo hægt sé að hefja vinnu við að búa til námsefni á táknmáli. 

Í fréttum okkar undanfarið höfum við greint frá stöðu heyrnalausra barna á Íslandi, en þau fá ekki námsefni á táknmáli. Í sumar fluttu tvær sex manna íslenskar fjölskyldur til Danmerkur vegna skorts á þjónustu við heyrnalausa fjölskyldumeðlimi. Raunar hafa í gegnum tíðin verið fjölmörg dæmi um að fjölskyldur heyrnalausra barna flytji úr landi. Þar á meðal er fjölskylda Ernu Hilmarsdóttur.

Við ákváðum það eftir að vera búin að berjast í bökkum hér í skólakerfinu að flytja með drenginn okkar til Danmerkur. Við höfðum fréttir frá öðrum sem höfðu gert þetta áður og gátum náttúrlega borið okkur upp við þau og það var niðurstaðan. Við förum 2005 með hann 14 ára gamlan, og svo má alltaf spekúlera um hvort það hefði verið betra að fara fyrr, segir hún. 

Erna flutti heim fyrir skömmu en Atli sonur hennar varð eftir í Danmörku.

„Þarna er bara miklu betur utan um þetta haldið heldur en var í boði hér, því miður“.

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, segist vera meðvitaður um að þessi vandi hafi verið til staðar um langa hríð. Því hafi tíu milljónir verið settar aukalega til Samskiptamiðstöðvar í fjárlögum næsta árs.

„Ég sé eftir öllum þeim sem flytja héðan þannig að já, það er auðvitað óásættanlegt fyrir okkur. Þessi börn eiga sinn rétt og þau eiga að geta notið menntunar. Þannig að þessi langi tími sem hefur liðið án þess að þarna hafi verið gerð nein sérstök bragarbót á , við þurfum að breyta því, við þurfum að takast á við þetta núna,“ segir hann.

Formaður foreldrafélags heyrnalausra barna telur að 15 milljónir á ári nægi til að framleiða námsefnið sem þarf.

„Ég er ekki hér að segja að við höfum unnið eitthvað stórkostlegt þrekvirki með því að bæta þarna tíu milljónum við en það er allavega skref sem við höfum tekið í þessa átt. Við erum að viðurkenna það að þessi vandi er uppi og að það þurfi að gera eitthvað í þessu,“ segir Illugi. 


Tengdar fréttir

"Þetta var það eina í stöðunni“

Tvær íslenskar barnafjölskyldur fluttu til Danmerkur í sumar vegna skorts á þjónustu við heyrnarlaus börn. Annar fjölskyldufaðirinn segir að yfirvöld bregðist of hægt við og að annað hafi ekki verið í stöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×