Innlent

Falskar ásakanir skemma fyrir raunverulegum málum

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi var viðtal við mann sem ranglega var sakaður af barnsmóður sinni um kynferðislegt ofbeldi gegn dóttur þeirra. Það mál er ekkert einsdæmi.

„Því miður þá kemur það alltaf upp af og til að það koma tilkynningar til barnaverndarnefnda þar sem verið er að ásaka foreldra, t.d. feður um að beita kynferðisofbeldi eða því um líku,“ segir Steinunn Bergmann, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu.

„Það er ekki bara dæmi um að mæður ásaki feður, heldur líka dæmi um að feður ásaki mæðurnar eða ásaki nýja stjúpföðurinn sem er kominn inn á heimilið. Þannig að þetta gengur í báðar áttir.“

Steinunn segir að því miður sé það svo að í erfiðum forsjárdeilumálum beri foreldrar ekki alltaf hag barna sinna nægjanlega fyrir brjósti og að sumar forsjárdeilur séu svo hatrammar að barnaverndin hefur þurft að grípa til þess að vista börn utan heimilis, þar sem að þeim er ekki vært á hvorugu heimilinu.

„Þessi mál þar sem að fólk er að koma með falskar ásakanir þau skemma fyrir þessum málum sem eru raunveruleg þar sem að það getur auðvitað verið að barnið sé beitt ofbeldi eða vanrækt hjá hinu foreldrinu og þá er erfitt að hlusta á slíkt ef að barnaverndin er að fá mikið af fölskum málum sem eru ekki á rökum reistar,“ segir Steinunn.

En hvaða áhrif getur þetta haft á börn?

„Svona deilur reyna alveg afskaplega mikið á börnin og það er svo erfitt fyrir barnið að fá það stöðugt yfir sig að foreldrar séu að ásaka hvort annað, það sé verið að ræða við barnið og það jafnvel yfirheyrt þegar það kemur heim um hvernig var hjá pabba eða hvernig var hjá mömmu. Börnum þykir vænt um báða foreldra sína og vilja að sjálfsögðu vera hjá þeim báðum og það er mjög meiðandi fyrir börnin að þurfa að hlusta á ásakanir á foreldri sitt,“ segir Steinunn.

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður.mynd/stöð 2
Skjólstæðingar brotna niður

Deilur foreldra geta verið erfiðar og á fólk það oft til að nota vanhugsuð úrræði til að beita sem vopnum í deilum sínum. En hvaða staða er komin upp fyrir þann sem að ósekju er sakaður um kynferðisbrot gegn barni sínu?

„Það er mjög algengt að menn lendi í mjög erfiðri stöðu þegar slíkar ásakanir koma fram,“ segir Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður. „Í fyrsta lagi auðvitað mjög erfiðum yfirheyrslum og svo gerist það stundum að menn þurfa að sæta gæsluvarðhaldi út af slíkum málum.“

Sveinn segir að oft taki við hjá þeim sakaða mjög löng bið eftir því að mál er fellt niður og á meðan málið er til meðferðar hefur mjög harkalegum aðferðum verið beitt af hálfu lögreglu.

„Ég man nýverið um dæmi þar sem skjólstæðingur minn fékk heimsókn frá víkingasveitinni og hann var handtekinn. Það stóð til að setja hann og annan mann í gæsluvarðhald, en það var nú hætt við. Svo kom á daginn að ásakanirnar voru gjörsamlega staðlausar. Ég held að hans atvinnutæki, tölvan, hafi verið tekin og skoðuð og síminn, og ég held að hann sé ekki búinn að fá þetta afhent nokkrum vikum síðar.“

Aðspurður segir Sveinn að hann hafi séð sína skjólstæðinga algjörlega brotna niður við þetta.

Löggjöfin tekur mjög hart á þeim brotum þegar borið er á menn rangar sakargiftir og í 148. grein hegningarlaga kemur fram að það geti varðað undir venjulegum kringumstæðum allt að tíu ára fangelsi.

„Ef það er sýnt fram á að hinn brotlegi hafi ætlað að baka viðkomandi velferðamissi er lágmarksrefsing tvö ár og allt að sextán ára fangelsi.“

En er algengt að menn vilji ekkert gera í kjölfar þess að á þá eru bornar rangar sakargiftir?

„Það er líka býsna algengt því að þeir átta sig á því líka það er kannski gott að láta málið liggja. Það geti verið erfitt fyrir viðkomandi að sanna þennan ásetning á þann sem bar á hann kæruna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×