Innlent

"Ljótustu lygar sem til eru“

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Maður sem borinn var sökum um að hafa beitt dóttur sína kynferðislegu ofbeldi segir heiminn hafa hrunið þegar ásakanirnar komu fram.

Maðurinn stóð fyrir nokkrum árum í harðvítugri forræðisdeilu við barnsmóður sína og sakaði hún hann í miðri deilunni um að hafa beitt dóttur þeirra kynferðislegu ofbeldi.

„Heimurinn hrundi bara,“ segir maðurinn, en vegna hagsmuna stúlkunnar birtir fréttastofa hvorki nafn né andlit hans.

Hann segir það vera áralanga vinnu að vinna sig út úr svona máli og þakkar fyrir að hafa verið í góðu jafnvægi andlega þegar málið kom upp. Hann hafi því verið betur í stakk búinn til að takast á við það.

Í kjölfar viðtala við stúlkuna í Barnahúsi lét lögregla málið falla niður, en í gögnum úr einu viðtalinu kemur fram að stúlkan sagði móður sína hafa sagt sér að segja lögreglu að faðir hennar hafi brotið á henni kynferðislega. Aðspurð sagðist stúlkan aldrei hafa orðið fyrir slíku ofbeldi.

„Dóttir mín er búin að vera gimsteinninn minn frá því hún fæddist í þennan heim. Mér finnst menn sem gera svona bara mega fara sína leið. Þetta er bara viðbjóður. Ég skil ekki hvað er hægt að sjá kynferðislegt í börnum.“

Hæstiréttur hefur dæmt föðurnum forræði yfir dóttur sinni. Hann segir að góð fjölskylda og góðir vinir hafi hjálpað honum í gegnum þetta erfiða verkefni.

„Mér finnst þetta orðið alltof algengt að foreldrar noti börnin sín sem eggvopn í forræðisdeilum. Þetta er vanvirðing við fjölskyldur og börn sem sannarlega lenda í því að vera beitt kynferðislegu ofbeldi. Þetta eru ljótustu lygar sem til eru.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×