Viðskipti innlent

Fá að bera vitni símleiðis frá Dubai

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Dómari í Aurum málinu hefur úrskurðað að heimilt sé að taka símaskýrslu af tveimur vitnum, Nikhil Sengupta og Tawhid Abdullah, sem búsettir eru í Dubai og eru fyrirsvarsmenn félagsins Damas. Þá var kröfu sérstaks saksóknara um að fá að taka skýrslu af fleiri vitnum, hafnað.

Aðalmeðferð málsins var frestað á þriðjudag eftir að verjendur kröfðust þess að vitni frá Dubai gæfu skýrslu í dómsal. Þá krafðist verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar þess að fyrrverandi stjórnendur Glitnis bæru ekki vitni í málinu.

Krafa var sett um að fyrrverandi stjórnarmenn Glitnis, Bjarni Ármannsson, Einar Sveinsson, Skarphéðinn B. Steinarsson, Þorsteinn M. Jónsson, Katrín Pétursdóttir, Haukur Guðjónsson og Pétur Guðmundsson bæru vitni, en þeirri kröfu var hafnað.

Bæði saksóknari og verjendur ætla að taka sér umhugsunarfrest áður en þeir taka ákvörðun um að kæra úrskurðurinn til Hæstaréttar.

Vitnin sögðust fús til að bera vitni símleiðis en samkvæmt upplýsingum ákæruvaldsins hafa þau bæði reynst ófáanleg til að koma til landsins til að vitna fyrir dómnum.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, taldi lagaskilyrði ekki vera fyrir hendi til töku símaskýrslu. Hann sagði að ekki væri hægt að sannreyna hver væri að vitna fyrir dóminum.

Í málinu eru þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson, sem báðir voru starfsmenn Glitnis, ákærðir fyrir umboðssvik vegna sex milljarða króna láns sem Glitnir veitti félaginu FS38 ehf. sem var í eigu Pálma Haraldssonar, vegna kaupa á félaginu Aurum Holdings Ltd.

Sérstakur saksóknari telur að hlutabréfin í Aurum Holdings Ltd. hafi verið keypt á yfirverði. Þannig hafi stjórnendur og starfsmenn Glitnis misnotað aðstöðu sína hjá Glitni með lánveitingunni til FS38 ehf. Pálma og Jóni Ásgeiri til hagsbóta, en hluti endanlegrar lánveitingar til FS38 ehf. rann í vasa Jóns Ásgeirs samkæmt ákæruskjali, eða alls 702 milljónir króna, sem fóru í uppgjör á persónulegum yfirdrætti hans hjá bankanum. FS38 fór í þrot og peningarnir hafa ekki endurheimst með tilheyrandi tjóni fyrir Glitni.


Tengdar fréttir

Var trúnaðarvinur Lárusar

Jón Sigurðsson fyrrverandi forstjóri FL Group og stjórnarmaður í Glitni gaf skýrslu fyrir héraðsdómi í Aurum málinu í dag. Þá fór fram munnlegur málflutningur um skýrslur ákveðinna vitna fyrir dómi.

Aðalmeðferð í Aurum málinu í dag

Stefnt á að Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri beri vitni í dag. Jón Ásgeir Jóhannesson beri vitni á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×