Innlent

Braut gegn barnungum systrum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vísir/vilhelm
Hæstiréttur Íslands þyngdi í dag dóm yfir Roberti Tomasz Czarny, úr fjögurra ára fangelsi í sex ár fyrir kynferðisbrot gegn tveimur barnungum systrum. Önnur stúlkan var á aldrinum átta til þrettán ára þegar brotin áttu sér stað á árunum 2008 til 2012. Hin stúlkan var tólf ára en þau brot áttu sér stað árið 2008. Honum er gert að greiða stúlkunum samtals sjö milljónir króna.

Í dómi Hæstaréttar segir að maðurinn hafi gerst sekur um alvarleg margendurtekin kynferðisbrot gegn tveimur börnum. Brotin hafi staðið yfir í langan tíma er hann dvaldi sem gestur á heimili þeirra. Maðurinn hafi nýtt sér aðstöðumun og trúnaðartraust stúlknanna og eigi sér engar málsbætur.

Í ákærunni segir að Robert hafi brotið gegn annarri stúlkunni á tímabilinu 2007-2012 hafa „ítrekað káfað á líkama hennar og kynfærum með höndunum, margoft kysst hana tungukossum á munninn og reynt að láta hana snerta á sér kynfærin, að minnsta kosti í tvö aðgreind skipti látið kynfærin nema við rass og endaþarmsop hennar og að minnsta kosti í tuttugu og fimm skipti nuddað kynfærunum upp við og inn í kynfæri hennar.“

Ákæruliðir gagnvart hinni stúlkunni eru fjórir. Roberti er meðal annars gefið að sök að hafa ítrekað káfað á kynfærum hennar og líkama, reynt að hafa við hana samræði og að hafa ítrekað beðið hana um að snerta á honum kynfærin.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 8. maí síðastliðinn þar sem Robert var dæmdur í fjögurra ára fangelsi og var gert að greiða stúlkunum samtals fimm milljónir króna í bætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×