Innlent

Bjarna urðu á óverjandi mistök en hefur axlað ábyrgð

MYND/GVA

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að Bjarna Harðasyni, þingmanni flokksins, hafi orðið á mikil og óverjandi mistök en hann hafi nú axlað ábyrgð sína og það virði hann.

Bjarni tilkynnti í morgun að hann hygðist segja af sér þingmennsku í kjölfar þess að hann sendi í gær aðstoðarmanni sínum fyrirmæli um að senda bréf undir nafnleynd á íslenska fjölmiðla, en í því var ráðist harkalega að Valgerði Sverrisdóttur, varaformanni flokksins. Svo illa vildi til að fyrirmælin bárust öllum fjölmiðlum landsins.

„Bjarna urðu á mikil mistök sem eru óverjandi og hann hefur axla ábyrgð á þeim. Það er sjaldgæft að menn geri það með þessum hætti og ég man ekki eftir því að menn hafi gert slíkt áður. Bjarni metur þetta svo að honum hafi orðið á óverjandi mistök og það er rétt hjá honum. Ég óska honum velfarnaðar í þeim störfum sem hann hverfur nú til," segir formaður Framsóknarflokksins.

Verði mönnum víti til varnaðar

Í stað Bjarna kemur Helga Sigrún Harðardóttir varaþingmaður sem verið hefur framkvæmdastjóri þingflokks framsóknarmanna. Guðni segir um málið að það ætti að verða öllum víti til varnaðar og vonar að menn læri af því. „Bjarni hefur verið í baráttu við þá sem kallast hafa Evrópusinnar. Þeir eiga að hafa sína stöðu í flokkunum eins og Evrópuandstæðingar. Framsóknarflokkurinn á að skoða þessi mál og menn hafa lagt á það áherslu að vera sammála um að vera ósammála en grandskoða engu að síður stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu," segir Guðni.

Aðspurður hvort hann telji flokkinn veikjast við þessa atburðarás segir Guðni að hann flokkurinn eigi að virða þessa niðurstöðu Bjarna. „Þeir sem voru ósáttir við hann geta nú fyrirgefið honum því hann hefur axlað sína ábyrgð. Þeir sem eru skoðanabræður Bjarna verða að átta sig á því að þeir verða að virða þann hóp sem er þeim ósammála og það verður auðvitað að vera gagnkvæmt. Ég tel líklegt að við náum eftir þetta enn betur saman og getum unnið af meiri ábyrgð," segir Guðni.

Telur stöðu sína ekki hafa breyst

Bjarni og Guðni voru nánir samstarfsmenn og um stöðu sína í flokknum eftir þessar væringar segir Guðni: „Bjarni er vígdjarfur maður og ég hef beðið hann að gæta vopna sinna og fara stundum hægar þegar honum er heitt í hamsi. Ég sé ekki að neinn geti sagt að staða mín hafi breyst við þetta. Ég er áfram formaður flokksins og ég trúi að við komum öflug til miðstjórnarfundar sem verður mikill tímamótafundur á margan hátt og þar verði menn einhuga," segir Guðni að lokum.




Tengdar fréttir

Bjarni segir af sér þingmennsku

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku í kjölfar þess að hann sendi í gær aðstoðarmanni sínum fyrirmæli um að senda bréf, þar sem ráðist er harkalega að Valgerði Sverrisdóttur varaformanni, undir nafnleynd á íslenska fjölmiðla. Svo illa vildi til að fyrirmælin bárust öllum fjölmiðlum landsins.

Prófessor: Rekur ekki minni til að sambærilegt hafi gerst áður

„Þetta er nú mjög óvenjulegt og eiginlega alveg einstakt,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands þegar hann er spurður álits á afsögn Bjarna Harðarsonar þingmanns. „Hann játaði auðvitað strax í gærkvöldi að sér hefði orðið á mistök. Síðan bregst Valgerður illa við og hann hefur bara talið að þetta væri það alvarleg yfirsjón að hann gæti varla beðið kjósendur um að treysta sér áfram,“ segir Gunnar.

Valgerður virðir ákvörðun Bjarna

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, segist virða ákvörðun Bjarn Harðarsonar, flokksbróður síns, að segja af sér þingmennsku vegna bréfs sem hann hugðist láta senda fjölmiðlum undir nafnleynd og hafði að geyma harða árás á Valgerði.

Valgerður: Erfitt fyrir Bjarna að sitja áfram sem þingmaður

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, telur að það verði erfitt fyrir Bjarna Harðarson, þingmann flokksins, að sitja áfram sem þingmaður vegna bréfs sem hann hugðist láta senda fjölmiðlum undir nafnleynd og hafði að geyma harða árás á Valgerði.

Bjarni íhugar stöðu sína

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, íhugar nú stöðu sína eftir að hann sendi í gær aðstoðarmanni sínum fyrirmæli um að senda bréf, þar sem ráðist er harkalega á Valgerði Sverrisdóttur varaformanni, undir nafnleynd á íslenska fjölmiðla. Svo illa vildi til að fyrirmælin bárust öllum fjölmiðlum landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×