Innlent

Benedikt um mögulegar þreifingar milli flokka: „Þetta er allt fyrir opnum tjöldum og gegnsæið rosalegt“

Atli Ísleifsson skrifar
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks. Vísir/anton
„Menn eru að hittast í fjölmiðlum og einhverjir að njósna hvað hinir eru að hugsa, en annars er ekkert í gangi,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, í samtali við fréttastofu, aðspurður um hvort einhverjar þreifingar hafi átt sér stað varðandi stjórnarmyndun í kjölfar þingkosninganna.

Benedikt segist ekki hafa teygt sig sérstaklega í átt að öðrum formönnum, annað en það sem hann hafi gert í sjónvarpi. „Þetta er því allt fyrir opnum tjöldum og gegnsæið rosalegt,“ segir Benedikt, léttur í bragði.

Viðreisn hlaut 10,5 prósent atkvæða í kosningunum í gær og sjö menn kjörna.

Benedikt segist bjartsýnn á að Viðreisn takist að ná saman við aðra flokka og mynda ríkisstjórn, þó að hann vilji ekki útlista með hvaða flokkum það ætti að vera að svo stöddu. „Á morgun eru þessir fundir með forsetanum sem allir fara í. Ég held að menn ætli að leyfa sér þá kurteisi að mæta til hans og skýra sín viðhorf.“

Hann segist ekki hafa rætt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, nema þá í fjölmiðlum í dag, fyrst á Stöð 2 í hádeginu og svo í umræðuþætti á RÚV í kvöld.

„Þetta tekur allt sinn tíma. Menn eru líka að átta sig á hlutunum. Menn sáu í hvað stefndi en svo fór þetta kannski aðeins öðruvísi en sumir vonuðu,“ segir Benedikt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×