Fastir pennar

Bætur geta átt rétt á sér

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Segja má að klofningur einkenni afstöðu margra til sjávarútvegsfyrirtækja hér á landi.

Annars vegar er fögrum orðum farið um „hetjur hafsins“ og áréttað mikilvægi sjávarfangs og -geirans fyrir íslenskt efnahagslíf. Í sjávarútvegi hafa enda orðið stórkostlegar framfarir, jafnt við veiðar, vinnslu og nýtingu afurða.

Á hinn bóginn er svo fussað og sveiað yfir hagnaði útvegsfyrirtækja og uppblásnum arðgreiðslum sumra þeirra, útgerðarauðvaldið sagt taka til sín óeðlilega stóran hluta af arðinum sem fæst fyrir auðlindina.

Lengi má deila um sanngjarna skiptingu. Ljóst er þó að útgerðin á við ákveðinn vanda að stríða og þá kannski landið allt. Vinnan er talin göfug en arðinum misskipt.

Í þessu andrúmslofti er hætt við að mörgum hnykki við orð José Ángel Gurría, framkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um að íslenska ríkið kunni að þurfa að greiða fyrirtækjum bætur sem mestan skaða bera af viðskiptabanni Rússa.

Þar séu komnar fram afleiðingar utanríkispólitískra ákvarðana sem landið hafi þurft að taka vegna samstöðu Vesturlanda og náinna tengsla við Evrópu. Stjórnmál snúist um fleiri hluti en efnahagsmál.

„En þessar bætur þurfa að vera tímabundnar og þær þurfa að vera í réttu hlutfalli og það þarf að hætta greiðslu þeirra á réttum tíma,“ segir Gurría í viðtali við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í gær.

Dragist viðskiptabannið á langinn þurfi fyrirtækin að vinna nýja markaði. Verði greiddar bætur áréttar Gurría, sem staddur var hér á landi í tengslum við kynningu á nýrri skýrslu OECD um íslenskt efnahagslíf, þá verði að meta hvert fyrirtæki fyrir sig.

Horfa þurfi til þess hversu mikil viðskipti við Rússa hafi verið í hverju tilviki fyrir sig og í hversu mörgum tilfellum Rússland sé eini viðskiptavinurinn, auk þess sem horfa verði til möguleika hvers fyrirtækis til landvinninga á nýjum mörkuðum.

Eðlilegt er að koma til móts við sjávarútvegsfyrirtækin vegna skaða sem þau bera af utanríkisstefnu landsins. Fjárfesting í geiranum er gífurleg og óeðlilegt væri að ganga fram með þeim hætti að ógnaði stöðugleika grunnatvinnuvegar þjóðarinnar.

Störf eru jú í húfi og horfa á til málsins frá því sjónarhorni. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru störfin og útflutningurinn stóra hagsmunamálið, en ekki arðurinn af fjárfestingu eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna. Ramminn sem framkvæmdastóri OECD leggur upp með er líklegur til að búa til sátt um stuðning við atvinnugrein í þrengingum sem til eru komnar vegna pólitískra ákvarðana.

Hugsanlegar bætur eiga að ákvarðast af raunverulegum stærðum og hagsmunum og vera tímabundnar á meðan fyrirtækin laga sig að breyttum aðstæðum. Ákvarðanir fyrirtækjanna um arðgreiðslur á erfiðum tímum hafa væntanlega líka áhrif. 

Aðferðafræðin þarf að vera í lagi ef einhver sátt á að verða um opinberan stuðning við sjávarútvegsfyrirtækin vegna viðskiptabanns Rússa.


Tengdar fréttir

Hluti Landsbankans einkavæddur á næsta ári

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að hafin verði vinna við skráningu Landsbankans á markað í vetur og að hlutur í bankanum verði einkavæddur á næsta ári.

Bjarni fékk föðurlegt klapp á bakið frá framkvæmdastjóra OECD

Í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar segir að góðar horfur í efnahagslífinu á Íslandi séu eftirtektaverðar. Helstu áskoranir sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir næstu misseri eru miklar launahækkanir og losun fjármagnshafta.

Sáttasemjari fái aukna ábyrgð

Ákvarðanir stjórnmálamanna þurfa oft að snúast um meira en efnahagsmál, segir Ángel Gurría, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar.






×