Innlent

Þorsteinn stendur við orð sín í Kastljósi

Þorsteinn Már Baldvinsson.
Þorsteinn Már Baldvinsson.

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis hefur sent frá sér yfirlýsingu varðandi það hvort samþykki stærstu hluthafa í Glitni hafi verið fengið áður en Seðlabankinn boðaði til blaðamannafundar þar sem tilkynnt var um yfirtöku ríkisins á 75 prósenta hlut í bankanum. Þorsteinn sagði í Kastljósi í gær að ekki hafi verið fengið samþykki stærstu hluthafa áður en boðað var til fundarins en Seðlabankinn vísaði þessu á bug í tilkynningu fyrr í dag.

Yfirlýsing Þorsteins fer hér á eftir í heild sinni:

Vegna fréttatilkynningar frá Seðlabanka Íslands um boðun blaðamannfundar sl. mánudag vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri:

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég m.a. hef, var atburðarásin með eftirfarandi hætti:

1. Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hringdi í Glitni kl. 8:45 og

tilkynnti að búið væri að boða blaðamannafund kl. 9:15 í

Seðlabankanum og óskaði eftir nærveru forstjórans á þeim fundi.

2. Klukkan 8:55 hringdi undirritaður í Ingimund Friðriksson,

seðlabankastjóra, og spurði hvort búið væri að boða til

blaðamannafundar. Hann sagði svo ekki vera.

3. Klukkan 8:58 hringdi Davíð Oddsson og tjáði mér að það væri rangt hjá

Ingimundi að ekki væri búið að boða til blaðamannafundar. Það væri

búið að boða til blaðamannafundar og ítrekaði hann ósk sína um að

forstjóri Glitnis væri viðstaddur fundinn.

4. Klukkan 9:16 birtist á visir.is frétt þess efnis að búið væri að boða

til blaðamannafundar í Seðlabankanum.

5. Klukkan 9.22 hringdi Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri og

undirritaður sagðist í því augnabliki vera kominn með undirskrift

stærsta hluthafans.

6. Klukkan 9.24 var tölvupóstur með undirskrift stærsta hluthafans

sendur til Seðlabankans.

Það að Seðlabanki Íslands sendi ekki frá sér tölvupóst fyrr en kl. 9:25, þar sem formlega er boðað til blaðamannafundar kl. 9:20, breytir því ekki að búið var að boða menn munnlega til blaðamannafundar t.d. sbr. frétt á visir.is kl. 9:16. Ég stend því við fyrri orð mín um aðdraganda þessa máls.

Nú skiptir mestu að allir aðilar snúi bökum saman og leiti leiða til þess að takast á við þá áskorun sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir um þessar mundir. Ég legg áherslu á að vinnufriður skapist fyrir starfsmenn og stjórnendur Glitnis og mun því ekki tjá mig frekar um samskipti mín við starfsmenn Seðlabanka Íslands.

Þorsteinn Már Baldvinsson

Stjórnarformaður Glitnis

 

Athugasemd frá fréttastjóra:

Fréttin á visir.is sem vísað er til í 4. lið yfirlýsingar Þorsteins Más Baldvinssonar, var ekki skrifuð kl. 09.16 heldur var um að ræða uppfærða frétt sem var skrifuð á þeim tíma um að FME hefði stöðvað viðskipti með bréf Glitnis í Kauphöllinni. Ritstjórn barst póstur frá Seðlabanka Íslands kl. 9.25 og var fréttin uppfærð þá. Í öllum látunum gleymdist hins vegar að uppfæra tímann á fréttinni.
















Tengdar fréttir

Segir Þorstein Má ekki hafa farið með fleipur í Kastljósi

Björn Ingi Sveinsson forstjóri Saxbygg og stjórnarmaður í Glitni segir að Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður bankans hafi ekki farið með fleipur í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi. Þá sagði Þorsteinn að boðað hefði verið til blaðamannafundar í Seðlabankanum áður en búið var að fá samþykki hjá stærstu hluthöfum bankans. Seðlabankinn sagði í yfirlýsingu fyrr í dag að samþykki hefði verið komið þegar boðað var til fundarins.

Davíð boðaði ekki til fundar án samþykkis hluthafa

Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður Glitnis var í viðtali í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Þar fór hann yfir aðdragandann að yfirtöku Ríkisins á 75% hlut í bankanum. Í máli Þorsteins kom meðal annars fram að Davíð Oddsson formaður bankaráðs Seðlabankans hefði boðað til blaðamannafundar á mánudagsmorgun áður en búið var að fá samþykki hjá hluthöfum bankans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×