Handbolti

Arnór: Á betri stað nú en fyrir ári

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Atlason, skytta íslenska landsliðsins í handbolta, nýtur sín þessa stundina með Saint-Raphaël í frönsku úrvalsdeildinni. Það var þó ekki alltaf svo.

„Staðan á liðinu er betri nú en fyrir ári síðan. Það voru þjálfaraskipti í sumar og við fórum ágætlega í gegnum þau,“ útskýrir Arnór sem verður í eldlínunni í kvöld er Ísland mætir Ísrael í undankeppni EM 2016.

Arnór er á sínu öðru ári í Frakklandi og eftir erfitt fyrsta ár líður honum vel nú. „Ég er með stærra hlutverk en ég var með í fyrra og ég var auðvitað ekki sáttur þá. En ég hef tekið meiri ábyrgð í ár og það hefur gengið vel. Ég er á betri stað nú en fyrir ári síðan,“ segir hann.

Vísir
„Við erum í fimmta sæti núna og teljum okkur vera með lið sem getur verið í hópi 4-5 efstu liðanna. Við erum því á pari núna og líður vel, þó svo að við viljum auðvitað meira.“

Franska úrvalsdeildin hefur verið að styrkjast með hverju árinu og Arnór segir að þó svo að liðin séu nokkuð frá þeim allra bestu í Þýskalandi séu öll liðin í Frakklandi sterk og enginn auðveldur andstæðingur í deildinni.

„Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun að koma hingað og mun aldrei gera. Það var það eina rétta í stöðunni á þeim tímapunkti þegar ég þurfti að taka ákvörðun um mína framtíð. Okkur í fjölskyldunni líður þess fyrir utan mjög vel í Frakklandi.“

Strákarnir niðurlútir eftir tapið gegn Bosníu í júní.Vísir
Arnór var eins og aðrir landsliðsmenn svekktur eftir að Ísland tapaði fyrir Bosníu í umspili fyrir HM 2015 í sumar. Strákarnir vilja bæta fyrir það með því að komast á EM í Póllandi en sú vegferð hefst í Laugardalshöllinni í kvöld.

„Það er eldmóður í okkur og það er gott að finna fyrir því. Við verðum að nýta það sem gerðist í sumar og gera eitthvað gott úr því - þetta var spark í rassinn. Það finn ég þegar ég ræði við leikmenn og þjálfara.“

„Það verður fyrst högg fyrir okkur ef við missum af öðru stórmóti. Við ætlum að gera allt sem við getum til að komast til Póllands en það verður alls ekki sjálfgefið að komast þangað.“

„Við erum í erfiðum riðli og þurfum að standa okkur vel. En við vitum að þessi vika er mikilvæg og ef við vinnum fyrstu tvo leikina erum við með þetta í okkar eigin höndum.“

Ísland mætir svo Svartfjallalandi ytra á sunnudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×