Menning

Aðeins líflegri og frjálsari en áður

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 Ragnar blandar saman skúlptúr og málverki í list sinni.
Ragnar blandar saman skúlptúr og málverki í list sinni. Fréttablaðið/Arnþór
„Ég er í miðri uppsetningu og enn að ákveða hvað ég er að gera,“ segir Ragnar Jónsson myndlistarmaður hlæjandi, þar sem hann er staddur í galleríinu Þoku á Laugavegi 25.

Hann opnar myndlistarsýningu þar í dag klukkan 16.

Ragnar blandar saman skúlptúr og málverki.

„Ég vinn með málningu sem efni sem ég beygi, brýt og sker niður. Þeir sem hafa fylgst með sýningum mínum þekkja það en núna er ég með nýjar útgáfur, aðeins líflegri og frjálsari,“ segir hann.

Ragnar er fertugur, uppalinn Reykvíkingur en hefur búið í Skotlandi síðustu ár. Útskrifaðist úr meistaranámi frá Glasgow School of Art árið 2008 og hefur starfað í Glasgow síðan, bæði sjálfstætt og fyrir aðra myndlistarmenn. Skyldi vera auðvelt að lifa af listinni þar?

„Já, skoska listaráðið er öflugt og sér um styrkveitingar bæði til safna og gallería. Þetta mundi ekki ganga öðruvísi.

Það kaupir enginn myndlist í Skotlandi. Þar snýst allt um sýningar en ekki sölu sem er í sjálfu sér fínt upp á myndlistina að gera. Þá er fólk ekki að elta peninga, bara að búa til myndlist og setja upp metnaðarfullar sýningar.“

Ragnar hefur þurft að setja listaverkin sín saman að nokkru leyti eftir að hann kom til landsins.



„Þetta er hálfgert origami hjá mér,“ segir hann glaðlega. „Innflutningur á list hingað er dýr og því verður maður að vera svolítið sniðugur.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×