Innlent

„Þeir segja að Alzheimer sé ólæknandi en ég hef hjálpað konu sem hefur fengið verulegan bata“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
„Ég horfði ekki á manninn sem dauðvona, þetta var bara maður sem var veikur, og ég vildi bara gera allt til að hjálpa honum. Þetta var bara af einskærum kærleika til hans.“
„Ég horfði ekki á manninn sem dauðvona, þetta var bara maður sem var veikur, og ég vildi bara gera allt til að hjálpa honum. Þetta var bara af einskærum kærleika til hans.“ Vísir/Anton Brink
Júlíus Júlíusson, tæknifræðingur, var í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun. Þar sagðist hann ekki vera í sölumennsku.

Hann þvertók einnig fyrir að hafa verið að reyna að selja Guðjóni Sigurðssyni, formanni MND-félagsins á Íslandi, tilraunameðferð við sjúkdómnum og sagði jafnframt að Guðjón hafi spurt sig leiðandi spurninga á fundum þeirra en upptökur frá þeim birtust í Kastljósi í gærkvöldi.

„Ég var ekki að selja honum þessa meðferð. Eða þetta var reyndar ekki meðferð. Ég var að orkujafna orkukerfið hans. Ég var ekki að selja honum það neitt.“

Þá sagðist hann aldrei hafa verið að selja búnaðinn sem hann sýndi Guðjóni. Hann hafi heldur ekki hafa verið að kynna búnaðinn fyrir formanni MND-félagsins heldur hafi hann verið að nota búnaðinn á sjúklinginn.  

En hafðirðu ekki áhyggjur af því að þú værir að vekja þarna upp falsvonir hjá dauðvona manni?

„Ég horfði ekki á manninn sem dauðvona, þetta var bara maður sem var veikur, og ég vildi bara gera allt til að hjálpa honum. Þetta var bara af einskærum kærleika til hans.“

Hefurðu ekki heyrt eða lesið um það að MND-sjúkdómurinn er ólæknandi?

„Ég hef lesið og heyrt margt og margt hefur verið sagt ólæknandi. Margt sem sagt hefur verið ólæknandi hefur verið læknandi. Þannig að þó að medían segi að eitthvað sé svona þá er ekki þar með sagt að það séu lög.“

Hefurðu séð eitthvað sem er ólæknandi læknast með svona tæki?

„Ég hef hjálpað mörgum en er þó tiltölulega nýbyrjaður á þessu. En þeir segja að Alzheimer sé ólæknandi en ég hef hjálpað konu sem hefur fengið verulegan bata. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það betur en hún er allavega að fá bata.“

Hlusta má á viðtalið við Júlíus í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×