Erlent

„90 prósent líkur“ á sigri Clinton

Samúel Karl Ólason skrifar
Hillary Clinton.
Hillary Clinton. Vísir/Getty
Það eru 90 prósent líkur á því að Hillary Clinton verði kjörinn forseti Bandaríkjanna samkvæmt nýrri könnun Reuters og Ipsos. Independent gengur lengra og segir „ómögulegt“ fyrir Trump að vinna.

Samkvæmt Reuters lítur út fyrir að Clinton muni öðlast 303 kjörmenn og Trump 235. Til að sigra þarf 270 kjörmenn. Hins vegar með tilliti til atkvæða er munurinn einungis 45 prósent gegn 42 Clinton í vil.

Kosningarnar velta í rau á útkomunni í Flórída, Colorado, Ohio, Nevada og Virginíu.

Clinton með fleiri kjörmenn en Trump

Yfir heildina litið, samkvæmt Independent, er Clinton talin vera með 19 örugg ríki og þar með 242 kjörmenn. Trump er með 22 örugg ríki og 180 kjörmenn. Þau ríki sem Clinton er talin örugg í eru fjölmennari en ríki Trump og því eru fleiri kjörmenn í boði þar.

Sé litið til ríkja sem talin Clinton og Trump eru „líkleg“ til að sigra er Clinton með 257 kjörmenn gegn 206 kjörmönnum Trump.

Þá eru ríkin fimm, sem nefnd eru hér að ofan eftir. Demókratar hafa sigrað í þeim öllum í síðustu tveimur kosningum.

Sigur Clinton í Flórída, Ohio eða Virginíu myndi tryggja henni Hvíta húsið. Einnig myndi duga henni að sigra í Colorado og Nevada og þannig þyrfti hún ekki Flórída eða Ohio.

Donald Trump þyrfti hins vegar að sigra í Flórída, Ohio og Virgínu. Þar að auki þyrfti hann eitt ríki til viðbótar.

Þar að auki eru nokkur ríki, eins og Arizona, sem hafa gjarnan kosið repúblikana að snúa sér í átt að Clinton. Þar gæti kosningaþátttaka spænskættaðra Bandaríkjamanna skipt miklu máli.

Fyrstu kjörstaðirnir ytra opna klukkan ellefu að íslenskum tíma og verður lokað tólf tímum seinna. Vísir mun standa vaktina í nótt og birta fréttir af gangi mála.


Tengdar fréttir

Heimsbyggðin bíður úrslitanna í ofvæni

Hillary Clinton hefur enn nokkurt forskot á Donald Trump samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum, en það er ekki mikið. Óvissa ríkir um hve mikil áhrif síðasta útspil FBI hefur á úrslitin. Hvernig sem fer þá markar dagurinn tímamót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×