Enski boltinn

Wenger kemur Özil til varnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Özil er dýrasti leikmaður í sögu Arsenal.
Özil er dýrasti leikmaður í sögu Arsenal. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur komið Mesut Özil til varnar, en Þjóðverjinn hefur fengið mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína í byrjun tímabils.

Özil hafði hægt um sig á þriðjudaginn þegar Arsenal tapaði 2-0 fyrir Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu, en Wenger vill ekki skella skuldinni á Özil.

„Gagnrýnin var ekki alveg réttmæt því sóknarleikur okkar var ekki góður á þriðjudaginn og sóknarmenn okkar gátu ekki sýnt sínar bestu hliðar,“ sagði Wenger.

Hann segir að Özil þurfi tíma til að komast í gang, en Þjóðverjinn kom seint til æfinga hjá Arsenal eftir HM í sumar, þar sem Þýskaland stóð uppi sem sigurvegari.

„Hann kom ekki til okkar fyrr en 11. ágúst. Hann þarf nokkra leiki til komast aftur í sitt besta form, það kemur fyrir.

„Stuðningsmennirnir ættu ekki að hafa áhyggjur og þeir ættu að styðja við bakið á honum. Af hverju ætti hann að vera blóraböggull? Hvers vegna? Við höfum tapað einum leik síðan 1. apríl.

„Það erfiða við þjálfun fótboltaliðs í dag er að allir þykjast vita allt og fólk er fljótt að fella sleggjudóma.

„Þú verður að sætta þig við að fótbolti er leikinn af manneskjum sem eiga sína góðu og slæmu daga eins og allir aðrir,“ sagði Wenger ennfremur.

Arsenal mætir Aston Villa á morgun, en bæði lið eru ósigruð í ensku úrvalsdeildinni.

Wenger og félagar eru með sex stig eftir fjórar umferðir í ensku úrvalsdeildinni.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Jafnt í hádegisstórleiknum

Arsenal og Manchester City skildu jöfn 2-2 í frábærum fótboltaleik í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu í dag.

Debuchy frá í sex vikur

Arsene Wenger hefur staðfest að Frakkinn öflugi sé meiddur á ökkla.

Wenger ver Welbeck

Hinn nýi framherji Arsenal, Danny Welbeck, fór illa með nokkur góð færi í leiknum gegn Dortmund í gær sem Arsenal tapaði, 2-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×