Erlent

Vopnum varpað til Kúrdanna við Kobani

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vígasveitir Íslamska ríkisins hafa hrakið fjölda fólks á brott.
Vígasveitir Íslamska ríkisins hafa hrakið fjölda fólks á brott. fréttablaðið/AP
Tyrknesk stjórnvöld hafa snúið við blaðinu gagnvart Kúrdum, sem flúið hafa frá Írak undan öfgasveitum Íslamska ríkisins, og hjálpa þeim nú að fara yfir landamærin til Sýrlands til að berjast þar gegn vígasveitunum.

Tyrkir hafa hingað til ekki viljað blanda sér með neinum hætti í átökin í Sýrlandi og sjá enn ekki ástæðu til að taka sjálfir þátt í neinum hernaðaraðgerðum.

Bandaríkjamenn hafa hins vegar varpað vopnum, skotfærum og lyfjum til Kúrda skammt frá bænum Kobani í Sýrlandi, þar sem harðir bardagar hafa geisað undanfarið.

Þetta er í fyrsta sinn sem búnaði af þessu tagi er komið til Kúrda í Sýrlandi, en það eru stjórnvöld í Kúrdahéruðum Íraks sem létu vopnabúnaðinn í té.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að það væri ábyrgðarlaust og siðferðilega afar erfitt að styðja ekki Kúrda í baráttu þeirra gegn Íslamska ríkinu.

Flestir íbúar í Kobani og nágranni eru flúnir undan vígasveitunum, sem hafa að venju gengið fram af mikilli grimmd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×