Viðskipti erlent

Vísindavæða líkamsrækt

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Úr líkamsræktarsal.
Úr líkamsræktarsal. Vísir/Valli
Kanadíska fyrirtækið Athos hyggst framleiða líkamsræktarklæðnað með innbyggðum tölvubúnaði svo að hægt sé að mæla áreynslu vöðva, hjartslátt og fleiri þætti meðan á líkamsrækt stendur. Upplýsingarnar yrði svo hægt að skoða í þar til gerðu forriti fyrir snjallsíma en gögnin yrðu send í gegnum Bluetooth.

„Stór hluti líkamsræktar byggist nú á upplýstum ágiskunum. Með okkar tækni gætu einkaþjálfarar virkilega skilið og séð hvernig og hvar reynir á íþróttamenn. Þeir gætu séð hvað virkar og hvað virkar ekki og nýtt upplýsingarnar til að fá íþróttamenn til að skila meiri árangri,“ sagði Don Faul, forstjóri Athos, í viðtali við CNN Tech í gær.

Faul sagði jafnframt að vandamálið væri ekki að fá tæknina til þess að virka. Erfiðara væri hins vegar að setja upplýsingarnar fram á skiljanlegan hátt fyrir neytendur svo þeir gætu skilið hvað þær þýddu. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×