Innlent

Vill Grafar­vog sem sjálf­stætt sveitar­fé­lag: Segir hverfinu stjórnað af mönnum í Borgar­túni sem hafa jafn­vel ekki komið þangað

Birgir Olgeirsson skrifar
Formaður Sjálfstæðisfélagsins í Grafarvogi vill að hverfið verði sjálfstætt sveitarfélag. Ef af yrði þá yrði Grafarvogur fjórða stærsta sveitarfélag landsins með sautján þúsund íbúa. Vill formaðurinn meina að þjónustan yrði betri og hægt yrði að halda útsvarsgreiðslum íbúa í sjálfstæðu sveitarfélagi Grafarvogs lægri en í Reykjavíkurborg.

Þetta sagði formaðurinn Emil Örn Kristjánsson í viðtali við Í bítið á Bylgjunni í morgun. Þar gantaðist Emil Örn með það að vera sjálftitlaður bæjarstjóri í Grafarvogi en hann sagði Sjálfstæðisfélagið í hverfinu vera eina pólitíska aflið þar sem lætur sig málefni Grafarvogs varða. Hann sagði Grafarvogi stjórnað af mönnunum á skrifstofum borgarinnar í Borgartúni sem séu í engri nánd við hverfið og sem hafi jafnvel aldrei komið þangað.

Hefur félagið haldið tvo fundi, annars vegar með Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, og Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra Hveragerðis, þar sem þau fóru yfir kosti þess að búa í minna sveitarfélagi.

„Reykjavík er illa rekið sveitarfélag. Hún er bákn. Þeir sem stjórna borginni eru ekki neinni nánd við íbúa. Borgin er stórskuldug og í öllum skoðanakönnunum skorar Reykjavík lágt í ánægjuvoginni,“ sagði Emil Örn og nefndi sem dæmi að sveitarfélögin í nágrenni Reykjavíkur, Mosfellsbær, Garðabær og Seltjarnarnes, séu vel rekin, fjárhagsstaðan góð og skora hátt í ánægjuvoginni.

Hann sagðist gera ráð fyrir að gera þyrfti lagabreytingu svo Grafarvogur geti orðið sjálfstætt sveitarfélag en það sé vandamál sem hægt sé að leysa.

Spurður hvort að öflugri hverfaráð yrði ekki betri lausn fyrir Grafarvog sagði hann núverandi fyrirkomulag þeirra handónýtt. Ef þau fái ekki aukið vald verður hreinlega að leggja þau niður.

Hægt er að hlusta á viðtali við Emil Örn í spilaranum hér fyrir ofan. 


Tengdar fréttir

Af meintu einelti og ofbeldi

Það er ekki einleikið hvernig umræðan hefur verið á frétta- og samskiptamiðlum síðan Jón Gunnar Kristinsson borgarstjóri ásakaði Grafarvogsbúa, að loknum eftirminnilegum íbúafundi, um að leggja sig í einelti og beita sig ofbeldi.

"Gat ekki ímyndað mér að það væri viðurkennt nafn"

Emil Örn Kristjánsson, formaður Félags sjálfstæðismanna í Grafarvogi, segist hafa haldið að Gnarr væri einhvers konar gælunafn. Emil Örn gagnrýndi Jón Gnarr, borgarstjóra Reykjavíkur, nokkuð harðlega í innsendri grein í Fréttablaðinu í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×